Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Alla leið: Tékkneskur Friðrik Dór með trompet

Mynd: Eurovision Song Contest 2018 / Youtube

Alla leið: Tékkneskur Friðrik Dór með trompet

08.04.2018 - 12:10

Höfundar

Felix Bergsson fékk fjóra valinkunna sérfræðinga til liðs við sig í þættinum Alla leið sem hóf göngu sína á ný á laugardag. Saman rýndu þau í fyrstu átta lögin sem keppa með Íslendingum í fyrri undanriðli þann 8. maí.

Alls eru 43 lög sem keppa í Lissabon dagana 8., 10. og 12. maí. Álitsgjafar í Alla leið að þessu sinni eru tónlistarfólk með mikla reynslu úr Eurovision-heiminum. Það eru Friðrik Dór Jónsson, Helga Möller og Guðrún Gunnarsdóttir. Jóhannes Þór Skúlason almannatengill bætist síðan í hópinn úr nokkuð óvæntri átt. Hann hefur haft gríðarlegan áhuga á keppninni um árabil og hefur fylgst með undankeppnum annarra landa. Hann hefur að eigin sögn sérlegt dálæti á ítölsku undankeppninni.

Guðrún Gunnars spáði rétt

Eins og alkunna er sigraði hinn portúgalski Salvador Sobral í keppninni fyrir ári. Söngvarinn Friðrik Ómar þóttist nokkuð viss í sinni sök þegar spáð var í spilin í fyrra og sagði að Ítalía myndi sigra. Nafni hans Friðrik Dór var sammála því. Guðrún Gunnarsdóttir hitti beint í mark og sagði að Portúgalar myndu bera sigur af hólmi. Helga Möller var í íslensku dómnefndinni á síðasta ári og segir að nefndin hafi verið á einu máli um ágæti portúgalska framlagsins. „Við vorum öll heilluð af þessu lagi,“ segir hún, „en önnur lög röðuðust allt, allt öðruvísi.“

„Það er svo skemmtilegt við þessa keppni er að þetta er ekki alveg að marka,“ segir Guðrún. „Við erum að dæma núna bara eftir myndböndunum og upptökunum,“ segir hún. „En síðan þegar þú ert kominn út, þegar þetta er komið live á svið, þá einhvern veginn er ekki hægt að fela ef þetta er lélegt.“

Ekki liggur fyrir í hvaða röð lögin fara á svið þriðjudagskvöldið 8. maí, en þau lög sem koma fram eru hér rýnd í stafrófsröð:

Gildran frá Albaníu

Albanía sendir rokkslagara með tónlistarmanninum Eugent Bushpepa. Hann flytur eigið lag sem heitir Mall.

Jóhannes Þór segir að albanska undankeppnin sé ein af þeim metnaðarfyllstu í Evrópu. „Það er svona George Harrison í þessu en svo er þetta svolítið svona eins og Gildran úr Mosfellsbæ og mér hefur aldrei fundist Gildran vera góð hljómsveit.“

Guðrún Gunnarsdóttir segist vera hrifin af söngvaranum og tekur fram að hann geti sungið. „Ég er hrifin af laginu og þessum flutningi ef hann syngur á albönsku.“

Helga Möller tekur undir orð Guðrúnar hvað sönghæfileika Bushpepa varðar og segir hann frábæran söngvara og með flotta klippingu að auki. „En mér finnst þetta svolítið gamaldags og ég fór að spá í hvort að myndbandið væri tekið upp á [hótel] Sögu?“

Friðrik Dór segir lagið vera fyrir ofan meðallag en byrjun þess sé í lengri kantinum. „Það er bara ekkert að þessu.“

Aserbaídsjan í vandræðalegri útsetningu

Framlag Asera í ár er lagið X my heart með söngkonunni Aisel.

Friðrik Dór segir að lagið sé fínt en útsetningin sé vandræðaleg á köflum og lagið byrji ekki vel. „En svo finnst mér þetta sækja ágætlega í sig veðrið, viðlagið er fínt. Svo þegar maður les um þetta þá er valinn maður í hverju rúmi.“

Guðrún segir að lagið byrji rólega en hún hafi trú á þessu. „Þetta er grípandi lag og það skiptir mjög miklu máli.“

Jóhannes Þór er hrifinn og segir að hér sé sama höfundateymi og var á bakvið lagi Running Scared, en það lag sigraði í keppninni fyrir hönd Asera árið 2011. „Ástæðan fyrir því að mér finnst þetta lag gott er að það er stuð og það er eitthvað að gerast þarna.“

Helga Möller segir að sér finnist lagið fallegt og tekur fram að flytjandinn sé falleg stúlka sem komi úr tónlistarfjölskyldu í Aserbaídsjan. „Ég held að þetta lag vinni á.“

Belgía með Bond-ballöðu

Sennek flytur Bond-skotnu ballöðuna A matter of time.

Guðrún Gunnarsdóttir segist vera geispandi yfir laginu. „Ég held að þetta fari ekki langt, þetta er svona miðjulag.“

Jóhannes Þór tekur undir það og segir að lagið sé flott, „en mér finnst söngkonan ekki nógu sterk til að keyra viðlagið upp í það sem það þarf til að ná einhverju power-i.“

Friðrik Dór segir viðlagið vinna á við nokkrar hlustanir. „Ég man hvað gladdi mig í byrjun þegar trommurnar fóru þangað með útsetninguna, þeir hefðu getað farið í eitthvað meira dark, en ég var ánægður með það.“

Helga Möller segir Adele koma upp í hugann. „Hún hefur sérstakan tón þessi stúlka og hann þarf ekkert alltaf að vera eitthvað svakalega sterkur en það er þessi sérstaki hugljúfi, svolítið hrái tónn sem ég hrífst af.“

Ítölsk ópera í boði Eista

Elina syngur fyrir Eistland og syngur óperuskotið popplag á ítölsku sem heitir La Forza.

Helga Möller segist vera alveg heilluð af laginu. „Ég er að hugsa um að fara að læra óperusöng.“

Jóhannes Þór segist telja að lagið muni aldrei sigra, en sér finnist lagið frábært. „Röddin er stórkostleg og sviðsetningin er ofboðslega flott. Eistarnir hafa verið frábærir í þessu og undankeppnin hjá þeim hefur verið æðisleg.“

Friðrik Dór er mjög hrifinn af lagi, flutningi og sviðsetningu. „Ég held að þetta sé lag sem nái að slá þögn á gott Eurovision-partý, að allir þagni og hlusti.“

Guðrún Gunnarsdóttir er ekki hrifin og segist ekki hafa trú á laginu í þessari keppni. „Ópera hefur aldrei gert neitt og það hafa komið margar flottar óperuraddir fram í Eurovision sem hafa verið frábærir söngvarar. Hún er falleg og allt það en mér finnst röddin ekki eins góð á efra sviðinu og hún er á neðri tónunum.“

Hvít-Rússi leitar föður síns

Framlag Hvíta-Rússlands er Alekseev sem syngur lagið Forever.

Jóhannes Þór horfði á hvítrússnesku undankeppnina og hefur því einn álitsgjafa séð Alekseev flytja lagið á sviði. „Hann er bara ekki sterkur live og mér fannst hann ekki valda því að vera á sviði og syngja þetta lag.“

Guðrún Gunnarsdóttir segist vera hrifin af laginu og hafa trú á Alekseev. „Ef hann verður vel æfður fyrir Eurovision og segjum bara að þeir komi með pabba hans. Hann hefur alla ævi þráð að hitta pabba sinn. Það er aldrei að vita hverju þeir finna upp á.“

Friðrik Dór segir að byrjunin á laginu þar sem söngvarinn syngur lágar nótur alveg dæmt til að mistakast. „Ég hef enga trú á því að hann byrji þetta sterkt, ekki nokkra minnstu. Lagið er ekki alslæmt en það er samt ekkert varið í það.“

Helga Möller segir að sér finnist lagið fyrst og fremst ofsalega leiðinlegt. „Mér finnst þetta bara mjög leiðinlegt lag og ég nenni ekki að hlusta á það.“

Ari sjarmar fyrir Íslands hönd

Hinn nítján ára gamli Ari Ólafsson flytur lagið Our Choice.

Guðrún segir Ara syngja mjög vel. „Hann er maðurinn sem gæti komið þessu lagi lengra, hann hefur einstaka útgeislun og nær dýrmætum augnkontakt við mig heima í stofu, við fólkið – þvílík útgeislun. Hann er einlægur, opinn og fallegur drengur.“

Helga Möller er sammála Guðrúnu. „Hann ber uppi lagið, ef lagið fer áfram þá er það af því að hann kemur því áfram.“

Friðrik Dór tekur í sama streng. Honum finnst Ari frábær og rifjar upp upplifun sína frá úrslitakvöldinu þegar hann fylgdist með útsendingunni staddur í Bandaríkunum. „Hann náði manni bara gjörsamlega þar og bæði flytur hann lagið mjög vel og svo er hann bara ótrúlega einlægur.“

Jóhannes Þór segir að það sem sé hægt að gera fyrir lagið geri Ari. „Hann er frábær. Hann nær að tengja við áhorfendur í gegnum sjónvarpsskjáinn sem er ekki mjög auðvelt mál, á þessu stóra sviði.“

Metoo-innblásinn Ísraeli nær til fólks

Netta Bartzialai syngur lag sem er innblásið af metoo-byltingunni og heitir Toy.

Friðrik Dór segir að lagið sé hressandi og vel unnið. „Svo minnir það mig á Golden boy líka. Ég elskaði Golden boy, var sextán ára hormónaköggull. Þetta eru minningar í bland við faglegt mat.“

Jóhannes Þór segist viss um að lagið verði frábært á sviðinu og tekur fram að þrátt fyrir ungan aldur hafi söngkonan mikla reynslu. „Hún er massa menntuð tónlistarlega og er góð söngkona og getur sungið sjálf og ég held að þetta verði ógeðslega flott pródúserað og verði pörfekt á sviðinu.“

Helga Möller segist rosalega hrifin af henni og segir að boðskapurinn nái til allra. „Mér finnst hún bæði skemmtilegur karakter og ef myndavél er á andlitinu á henni...af því að hún syngur ekki bara með röddinni heldur með öllu andlitinu. Þetta er bara skemmtileg kona sem nær til fólks.“

Guðrún Gunnarsdóttir segist mjög hrifin og finnst söngkonan töff. „Ég hlakka brjálæðislega til að sjá hvernig hún gerir þetta. Hún hefur flottar hreyfingar, er greinilega flottur dansari líka. Ég segi bara go girl.“

Litháísk ballaða

Litháíska lagið er ballaða og heitir When we are old og er flutt af Ievu Zasimauskaité.

Íslendingar áttu fulltrúa í litáísku undankeppninni í ár, Valgeir Magnússon og Sveinn Rúnar Sigurðsson áttu lag í úrslitunum og Ari Ólafsson flutti sigurlagið sitt í beinni útsendingu á úrslitakvöldinu í litáíska sjónvarpinu.

Helga Möller segir að lagið sé lítið og það sem haldi því uppi sé boðskapur lagsins og textinn. „Við verðum öll gömul og textinn fjallar um það þegar fólk eldist saman og nær því.“

Guðrún Gunnarsdóttir segir að lagið sé það minimalískt að það geti hugsanlega gert eitthvað. „Mér finnst hún bara gera þetta vel og þetta er svona smá hvíld frá öllu hinu sem stundum hefur virkað.“

Jóhannes Þór segir að sér finnist lagið sætt og sér finnist röddin skemmtileg. „Það er einhver tónn í henni sem minnir mig á... ég veit eiginlega ekki hvað. En mér líkar það. En ég er ekki viss um að þetta geri stóra hluti í riðli sem er úti um allt“.

Friðrik Dór segir að lagið sé algjör „miðja“ og segir að hún taki viðkvæmu týpuna alla leið. Hann nefnir sem dæmi að þegar sigurvegari síðasta árs Salvador Sobral fór sömu leið hafi lagið verið sterkt og ýtt undir það, en því sé ekki að heilsa hér.

Tékkneskur Friðrik Dór með trompet

Lie to me með hinum unga Mikolas Josef er framlag Tékka í ár.

Jóhannes Þór segir að lagið sé frábært. „Þetta er epic trompet guy, þetta á eftir að vera á Youtube, svona þriggja tíma trompet-lína.“

Helga Möller segist mjög hrifin af laginu „Svo er hann svo sætur og með flott gleraugu og minnir mig pínu á Friðrik Dór. Hann er töffari og með sjálfsöryggi og syngur vel og þetta er danslag.“

Friðrik Dór segir að honum finnist lagið ekki hljóma ekta og segir að honum líði eins og söngvarinn sé að leika og reyna eitthvað ósannfærandi. „En húkkurinn er góður.“

Guðrún Gunnarsdóttir tekur undir þau orð.

Þáttinn í heild sinni má nálgast í spilara.

Tengdar fréttir

Innlent

Ari annar á svið í undanúrslitunum

Eistar senda óperusöngkonu til Lissabon

Viðburðarík vika í Eurovision-heiminum

Popptónlist

Boðskapurinn skiptir mestu máli