Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Álit siðanefndar birt aftur

27.03.2019 - 20:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Miðflokksins hafa frest til 2. apríl til þess að bregðast við áliti siðanefndar Alþingis í máli þeirra. Málið snýr að ummælum þingmannanna á Klaustur bar 20. nóvember síðastliðinn og mögulegu broti þeirra á siðareglum fyrir alþingismenn. 

Niðurstaða meiri hluta siðanefndar er að hátterni þingmannanna falli undir gildissvið siðareglna Alþingis. Siðanefndin hefur þó ekki tekið afstöðu til þess hvort umrædd háttsemi teljist brot á siðareglum fyrir alþingismenn.

Í áliti siðanefndarinnar segir að þingmenn séu opinberar persónur og að háttsemi þingmannanna hafi átt sér stað á opinberum vettvangi og tengist málum sem hafi verið áberandi í umræðunni. „Þar sem hátternið varðar almenning verður ekki litið á þau atvik sem hér um ræðir sem einkasamtal.“ 

Einn nefndarmaður, Róbert Haraldsson, skilaði séráliti. Hann bendir á að Persónuvernd hafi ekki enn úrskurðað um Klausturmálið. Hann telur að þó að hátternið geti fallið undir gildissvið siðareglna fyrir alþingismenn þá séu líka til staðar verulegar efasemdir um að hátternið falli undir gildissvið þeirra. 

Álit siðanefndarinnar var upphaflega birt á vef Alþingis í gær, en tekið þaðan út nokkrum mínútum síðar. Þingflokkur Miðflokksins sendi í framhaldinu frá sér skilaboð þar sem fram kom að fjórir þingmenn flokksins hafi gert athugasemd við að til stæði að birta álit siðanefndar Alþingis á vef Alþingis um kvöldið Töldu þingmennirnir að fráleitt væri að birta álit áður en frestur til að skila andmælum rynni út. Hins vegar lægju fyrir nýjar og veigamiklar upplýsingar sem sýndu „að mat siðanefndarinnar væri byggt á röngum forsendum.“