Alheimurinn innra með þér

Mynd: 2001 A Space Oddissy / 2001 A Space Oddissy

Alheimurinn innra með þér

27.07.2018 - 11:36

Höfundar

„Við þurfum ekki nema að fletta blaðsíðu og festa augun á svart-hvítt tákn og við erum samstundis flutt yfir á nýjan stað,“ segir Þorvaldur Sigurbjörn Helgason sem lýsir því að týnast í sjálfum sér við lestur í pistli dagsins.

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason skrifar: 

Eitt sinn heyrði ég einn fastagest bókabúðarinnar segja að fátt hafi jafn mikil áhrif á lesanda og fyrsta bókin sem í raun og sann finnur sér leið að hjarta hans. Þær fyrstu myndir, bergmál orða sem við höldum að við höfum lagt að baki, fylgja okkur út lífið og móta þá höll í minninu sem við munum fyrr eða síðar heimsækja á ný, fyrr eða síðar – það skiptir ekki máli hve margar bækur við lesum, hve margar veraldir við uppgötvum eða hve mikið við lærum eða gleymum. Í mínu tilviki verður sá galdratexti ávallt þær blaðsíður sem ég fann í bókahillu í Kirkjugarði gleymdu bókanna.[1]

Það muna kannski ekki allir eftir fyrstu bókinni sem þeir lásu en flestir muna þó eftir fyrstu bókinni sem hafði raunveruleg áhrif á þá sem lesendur. Fyrir mig var Skuggi vindsins eftir Carlos Ruiz Zafón slík bók, bók þar sem „opnaðist endalaus alheimur sem ætti eftir að kanna“ til að vitna aftur í orð söguhetjunnar Daníels Sempere. En ólíkt hinum ytri alheimi sem blasir við okkur þegar við horfum upp í stjörnurnar þá opnast alheimur bókanna ekki út á við heldur inn á við, í þinn eigin huga og ímyndunarafl. Að því leiti er það að týna sér í lestri góðrar bókar svolítið eins og að týnast í sjálfum sér. Þetta gæti hljómað óþægilega í eyrum sumra en er það alls ekki, því hvað er betra heldur en að týnast í heimi sem verður til eftir þínu eigin höfði?

Árið 1967 skrifaði franski fræðimaðurinn Roland Barthes greinina Dauði höfundarins, þar sem hann lýsti því yfir að um leið og rithöfundur setji punktinn aftan við verk sitt deyi hann í raun drottni sínum gagnvart því og hætti að vera skapari þess. „Hver texti er að eilífu skrifaður hér og nú“ og verður þar af leiðandi ekki til fyrr en lesandinn glæðir hann lífi og skrifar hann með sínum eigin lestri. Eða eins og Barthes orðar það í lok greinarinnar: „Fæðing lesandans verður að kosta dauða höfundarins.“[2]

Þó að þessi hugmynd sé auðvitað fyrir löngu orðin að klisju í allri bókmenntaumræðu og sumir vilji meina að nú skipti sjónarhorn og afstaða höfundar sífellt meira máli þá finnst mér þessi rúmlega 50 ára grein ná að fanga einstaklega vel upplifunina að lesa. Þessi magnaða yfirfærsla sem á sér stað þegar orð á blaði breytast í myndir í höfði lesandans. Það er ákveðinn galdur fólginn í því að svart-hvít, kyrrstæð tákn geti orðið að dýnamískri og litríkri atburðarás með því einu að horfa á þau. En þetta gerist auðvitað ekki af sjálfu sér, þetta gerist við lestur. Og eins og Sigurður Pálsson orðaði það; þá er lestur ekki passíf athöfn, heldur aktíf.

Þegar maður horfir með þessum augum á lestur kemur það ekki á óvart að í mörgum fornum trúarbrögðum var uppfinning ritmálsins talin vera gjöf frá guðunum. Forn-Egyptar trúðu því að guðinn Thoth hefði fundið upp ritmálið og Forn-Grikkir töldu guðinn Hermes hafa fundið það upp. Í norrænni goðafræði eigum við Íslendingar svo okkar eigin sögu af því hvernig skáldskapurinn varð til. Í skáldskaparmálum Snorra Eddu segir skáldaguðinn Bragi söguna af því hvernig Óðinn stal skáldskaparmiðinum frá jötninum Suttungi. Mjöðurinn hafði verið búinn til af tveimur dvergum með því að blanda blóði hins alvitra Kvasis saman við hunang og hafði þann eiginleika að hver sá sem af honum drakk varð skáld eða fræðimaður.

En hvort við höfum verið svo lánsöm að hafa fengið að drekka af skáldskaparmiðinum eða aðeins fengið að bragða hlut skáldfífla skiptir ekki öllu máli því öll eigum við möguleika á að komast í snertinu við skáldskapinn. Að minnsta kosti öll okkar sem geta lesið. Við þurfum ekki nema að fletta blaðsíðu og festa augun á svart-hvít tákn og við erum samstundis flutt yfir á nýjan stað. Stað þar sem við erum bæði höfundur og landkönnuður. Skáldskapurinn er okkar persónulegi alheimur. Bókin er bara kortið.

Pistillinn var frumfluttur í þriðja þætti af Hve glötuð er vor æska? en þáttinn í heild má nálgast í Spilaranum

[1] Carlos Ruiz Zafón, Skuggi vindsins, þýðandi Tómas R. Einarsson, Reykjavík, Mál og menning, 2005.

[2] Roland Barthes, „Dauði höfundarins“, úr Spor í bókmenntafræði 20. aldar, þýðendur Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir, ritstjóri Garðar Baldvinsson og fleiri, Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Spíttskáldin og strætóskáldin

Pistlar

Dauði hipstersins

Pistlar

Hrein þekking á 15 mínútum?