Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Algjört ábyrgðarleysi“ dómstóla í máli Páls

15.03.2017 - 22:16
Áslaug Björgvinsdóttir fyrrverandi héraðsdómari
Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrum héraðsdómari. Mynd: RÚV
Áslaug Björgvinsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari í Reykjavík, segir að dómstólar hafi sýnt af sér algjört ábyrgðarleysi með því að birta í dómum á netinu heilsufarsupplýsingar um mann, sem stóð í málaferlum vegna ólögmætrar birtingar viðkvæmra persónuupplýsinga um hann. Framkvæmd slíkra mála hjá dómstólunum feli í sér hroka gagnvart venjulegu fólki.

Íslenskir dómstólar hafa í dómum á netinu ítrekað nafngreint og birt viðkvæmar upplýsingar um Pál, eins og ítarlega var fjallað um á ruv.is í gær. Héraðsdómur Reykjaness endurbirti upplýsingar um Pál um leið og dómurinn dæmdi honum bætur fyrir birtingu sömu upplýsinga. Persónuvernd skoðar málið. Páll hefur árum saman leitað réttar síns hjá opinberum stofnunum eftir að upplýsingar úr sjúkraskrá hans voru birtar í úrskurði siðanefndar lækna haustið 2011.

Áslaug Björgvinsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari í Reykjavík, hefur látið mál Páls til sín taka og skrifað stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bréf. Hún hefur verið gagnrýnin á dómskerfið og telur ekkert raunhæft eftirlit vera með því hvernig dómstólum landsins sé stjórnað.

Áslaug segir mjög alvarlegt að íslenskir dómstólar hafi birt viðkvæmar upplýsingar um Pál á netinu og segir málið ekki einsdæmi. Páll sé almennur borgari sem leiti réttar síns fyrir dómstólum, eins og eigi að vera tryggt samkvæmt lögum, stjórnarskrá og alþjóðasáttmálum. Niðurstaðan sé sú að um leið og dómstóllinn staðfesti að brotið hafi verið á honum, bæti dómstóllinn í með því að birta sömu upplýsingar, og nú undir nafni, en Páll var ekki nafngreindur í Læknablaðinu á sínum tíma.

„Þetta sýnir auðvitað algjört ábyrgðarleysi, og sú spurning vaknar auðvitað hjá venjulegu fólki sem sér þetta ítrekað: Á ég raunverulegt aðgengi að dómstólum?“

Áslaug segir að skynsamt fólk vegi og meti áhættuna af því að fara með viðkvæm mál fyrir dóm, ef það getur ekki treyst dómsvaldinu til að fara með upplýsingar af nærgætni og virðingu.

„Og talandi um virðingu. Raunverulega sýnir framkvæmd þessara mála virðingarleysi gagnvart fólki, satt að segja hroka að mínu mati.“

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV