„Algjörlega galið“ að láta Dynjandisheiði bíða

22.09.2018 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Það er galið að ætla ekki að laga veginn um Dynjandisheiði fyrr en eftir þrjú til fimm ár. Þetta segir formaður Vestfjarðastofu. Hann lýsir vonbrigðum með samgönguáætlun og segir það sorglegt hvernig stjórnmálamenn leiki sér að væntingum Vestfirðinga. Það sé með ólíkindum að ekki verði búið að laga veginn um Dynjandisheiði þegar Dýrafjarðargöng verða tekin í notkun.

Samgönguráðherra kynnti i gær lauslega samgönguáætlun til næstu fimmtán ára. Áætlunin er til umfjöllunar hjá þingflokkur ríkisstjórnarinnar. Verja á 160 milljörðum króna til framkvæmda og viðhalds á næstu fimm árum.

Gröftur Dýrafjarðarganga á Vestfjörðum gengur hraðar en upphaflega var áætlað. Gert var ráð fyrir því að göngin yrðu tekin í notkun árið 2020. Göngin liggja frá Dýrafirði til Arnarfjarðar. Þeim megin tekur svo Dynjandisheiði við. Fram kom í kynningu samgönguráðherra í gær að ekki standi til í að ráðast í bætur á veginum um Dynjandisheiði fyrr en eftir þrjú til fimm ár.

Pétur G. Markan er formaður Vestfjarðastofu sem hefur það að markmiði að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á Vestfjörðum.

„Það eru vonbrigði að Dynjandisheiðin sé ekki þarna inni. Það er náttúrulega algjörlega galið að fara í jafn myndarlega fjárfestingu og Dýrafjarðargöng eru, ef það er ekki samfella í fjárfestingunni, ef það er ekki samfella í framkvæmdinni. Þá er þetta nánast til einskis, vil ég meina, með Dýrafjarðargöngin. Það er sorglegt hvernig pólitíkin er búin að temja sér að spila með tilfinningar og væntingar fólks. Vestfirðingar eru að bíða og eru búnir að bíða afskaplega lengi eftir þessum vegaframkvæmdum, eftir þessari uppbyggingu innviða. Það er algjör ómöguleiki að menn geti gengið svona frá borði. Það er ekki hægt,“ segir Pétur.

Þannig að þér finnst of langt að bíða þess að það verði byrjað á Dynjandisheiði 2021-2023 eða seinna?

„Það segir sig sjálft að Dýrafjarðargöngin þegar þau klárast, þá verður að vera komin einhver samfella í framkvæmdina. Dynjandisheiðin eins og hún er í dag er ekki heilsársvegur og er engum bjóðandi. Þannig að það að það sé ekki samfella þarna eru vonbrigði og stundum efast ég bara um skynsemi manna þegar kemur að opinberum fjárfestingum í vegaframkvæmdum. Þetta er í raun og veru með ólíkindum,“ segir Pétur.

Frá Bíldudals til Þingeyrar er 97 kílómetra leið eða um tveggja klukkustunda akstur þegar Dynjandisheiði er fær. En þegar hún er ófær lengist leiðin um fjórar klukkutíma og verður alls 470 kílómetrar.

Samgönguráðherra sagði Sjónvarpsfréttum í gær að unnt væri að flýta einstökum framkvæmdum í samgönguáætlun með því að taka upp gjaldtöku. 
 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi