Algjörlega á okkar forsendum

Mynd: Youtube/ https://www.youtube.com / Youtube/ https://www.youtube.com

Algjörlega á okkar forsendum

17.05.2018 - 08:57
Lagið Bossy er nýjasta nýtt frá Reykjavíkurdætrum en það er unnið í samstarfi við strákana í Balcony Boyz. Myndbandið við lagið hefur vakið athygli og einhverjum gæti fundist það stangast á við feminísk gildi dætranna.

Ragga Hólm og Steiney Skúladóttir komu sem fulltrúar hljómsveitarinnar og sögðu aðeins frá aðdraganda lagsins og samstarfsins við strákana í Balcony Boyz. „Ég þekki einn úr Balcony Boyz, hann Guðjón Kristófer og við ákváðum fyrir langa löngu að gera eitthvað saman,“ segir Ragga en það leiddi svo út í stúdíó hitting og lagið Bossy varð til. Þau ákváðu svo að stækka umfangið og fá Kolfinnu Nikulásdóttur til að vera með og tengja lagið almennilega við Reykjavíkurdætur.

Mörgum gæti fundist að myndbandið með laginu, sem að sýnir meðal annars stelpurnar fáklæddar að mata strákana, stangist á við feminísk gildi Reykjavíkurdætra. Ragga og Steiney vilja hins vegar meina að svo sé ekki og að það sé allt á þeirra forsendum.

Stelpurnar segja að Kolfinna, sem að leikstýrir myndbandinu, hafi tekið allar ákvarðanir, hvort sem þær fólust í að vera á nærfötunum uppi á jökli að að mata karlmann kleinuhring.  „Það er enginn gaur að segja að þetta eigi að vera að gerast, þetta er algjörlega á okkar forsendum,“ segir Ragga.

En það er búið að vera nóg að gera hjá hljómsveitinni og stelpurnar hafa verið að spila út um allt, svo mikið að þær eru meira að segja búnar að eignast ofuraðdáanda sem að heitir Max. „Hann mætir á alla tónleika út um allan heim,“ segir Ragga og þar virðist ekki skipta máli hvort að það er í einhvers staðar úti í rassgati í Noregi eða í London. Fram undan hjá stelpunum í sumar er Evróputúr þar sem þær spila meðal annars í Bretlandi, Þýskalandi, Króatíu og Slóvakíu. Hérna heima munu þær koma fram á Secret Solstice í Laugardalnum og á Lunga á Seyðisfirði.

Ragga og Steiney voru gestir í Núllinu en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.