Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Algjör einhugur“ hjá Framsóknarflokknum

Mynd: RÚV / RÚV
Þingmenn Framsóknarflokksins mættust á þingflokksfundi klukkan eitt til að ræða það sem gerst hefur í óformlegum viðræðum flokksins við Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri-græn. „Algjör einhugur“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, um þá ákvörðun þingflokksins að taka þátt í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum um myndun ríkisstjórnar flokkanna þriggja.

„Það er eðlilegast að við hittumst þrjú í dag, eftir þessa fundi og förum yfir næstu skref,“ segir Sigurður Ingi um hvað gerist fyrst eftir að flokkarnir ákváðu að hefja formlegar viðræður. „Við munum náttúrulega setjast yfir það við þrjú og svo fer þetta vonandi af stað sem fyrst,“ segir Sigurður Ingi og segir að þá muni formenn flokkanna ræða hvenær óskað verði eftir formlegu stjórnarmyndunarumboði og hver fengi það í hendur. „Það verður að koma í ljós á okkar fundi í dag. Það verður að vera einhver spenna í þessu.“

„Það hefur verið uppleggið í þessum viðræðum þannig að það væri mjög eðlilegt að hún fengi umboðið til þess,“ svarar Sigurður Ingi aðspurður hvort Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, fái stjórnarmyndunarumboðið.

Sigurður Ingi svarar engu um hugsanlega skiptingu ráðuneyta. „Við höfum fyrst og fremst verið að leggjast yfir málefnin á þessum óformlegu fundum þannig að það er eitthvað sem við þurfum að taka til.“

Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast vonandi sem fyrst, segir Sigurður Ingi. „Þetta gekk mjög vel fyrir og um helgina þannig að það er gott að halda áfram meðan er góður gangur í hlutunum.“ Umræðurnar eru komnar langt á veg en það er samt alltaf talsverð vinna að koma þessu skýrt á blað til að stefnan sé sem skýrust, segir Sigurður Ingi. Hann á von á að formlegar stjórnarmyndunarviðræður taki allt að viku.

„Aðalatriði er að þessi ríkisstjórn verði samhent, öflug og nái því fram sem ég held að samfélagið þurfi: að það verði traust, stöðugleiki í pólitík og öflug ríkisstjórn sem getur tekið á þeim verkefnum sem eru fram undan.“