
Álfar fá pláss á byggingarsvæði í Hveragerði
Þetta er fyrsti áfangi sem byggður verður á reitum í bænum sem kenndir eru við Tívolí og Eden. Byrjað verður á Edensreit og er gert ráð fyrir að fyrstu íbúar geti flutt inn innan árs. Fyrirtækið Suðursalir stendur að framkvæmdunum en Jáverk byggir. Álfhóll er á Edensreitnum og var byggingum breytt til að taka tillit til álfa.
„Við lentum náttúrulega í svona smá skemmtilegri uppákomu,“ segir Gísli Steinar Gíslason stjórnarformaður Suðursala.
„Það kom í ljós að hér hefur verið álfhóll um langa hríð. Og við ákváðum í samstarfi við bæinn að breyta deiliskipulaginu og minnka byggingarmagnið í kringum álfhólinn, þannig að þeir hefðu sitt rými á svæðinu.“
Íbúðirnar í fyrsta áfanga verða 55 til 95 fermetrar að stærð og eiga þar af leiðandi að geta verið á tiltölulega góðu verði,“ segir Gísli Steinar.
„Við teljum að þetta sé akkúrat það sem vantar á markaðinn. Ef menn horfa á Reykjavík þá er náttúrulega mjög hátt íbúðaverð þar en hérna getum við boðið þetta á mun betra verði.“