Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Álfahól þyrmt vegna nýbyggingar á Edenreit

08.09.2017 - 22:25
Mynd með færslu
 Mynd: hveragerdi.is
Hveragerðisbær býðst til að greiða húsfélaginu að Reykjamörk 2 bætur upp á 2,5 milljónir þar sem ein af nýbyggingunum á svokölluðum Edenreit gengur að hluta inn á lóð húsfélagsins og minnkar hana um 309 fermetra, samkvæmt deiliskipulagstillögu. Bærinn ætlar jafnframt að sjá til þess að ekki verði raskað við hól á suðuhorni lóðarinnar sem íbúarnir telja að sé álfahóll.

Þetta kemur fram í minnisblaði Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði, sem lagt var fram á fundi bæjarráðs í dag.  

Reykjamörk 2 er fjölbýlishús og þar eru tíu íbúðir. Fulltrúar húsfélagsins í húsinu gengu á fund bæjarstjórans um miðjan síðasta mánuð og gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum gagnvart deiliskipulagstillögunni.

Á fundinum með bæjarstjóranum var rætt um fyrirhugaða skerðingu lóðarinnar og mögulegar bætur vegna hennar en einnig það, sem er íbúunum ekkert síður mikið hjartans mál- hóll í suðurhorni lóðarinnar sem íbúarnir vilja að verði alls ekki raskað þar sem þeir telja að hann sé álfahóll. 

Í minnisblaði bæjarstjórans kemur fram að niðurstaðan af fundinum með húsfélaginu hafi verið sú að húsfélaginu yrðu greiddar bætur upp á 2,5 milljónir og að álfahólnum yrði  þyrmt og séð til þess að rask umhverfis hann yrði sem minnst.  

Hveragerðisbær ætlar einnig að gróðursetja limgerði á eystri lóðamörkum lóðarinnar og útvega og gróðursetja 4 falleg garðatré á lóðinni í samráði við stjórn húsfélagsins.

Tilboðið verður nú lagt fyrir aðalfund húsfélagsins og ef meirihluti eigenda er hlynntur því verður málið afgreitt í samræmi við undirritun stjórnarinnar. Ef ekki, verður að taka málið upp í samræmi við niðurstöðu fundarins.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV