Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Alexei Navalny handtekinn í Moskvu

05.05.2018 - 12:42
epa06712577 Russian police arrests a participant of a liberal opposition rally which was organized by their leader Alexei Navalny, prior to the official inauguration of president Putin, in Moscow, 05 May 2018. Russian opposition activists are continuing
Mótmælandi handtekinn í Moskvu í morgun.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny var ásamt nokkrum stuðningsmanna sinna handtekinn á mótmælafundi í miðborg Moskvu í morgun. Mannfjöldi safnaðist þar saman til að mótmæla því að Vladimir Pútín verður settur í embætti forseta landsins í fjórða sinn á mánudag.

Mannfjöldinn hrópaði orðið skömm á úkraínsku að lögreglumönnunum sem fluttu Navalny á brott. Orðið var áberandi í uppreisninni í Kiev árið 2014. Það kom til stimpinga milli stuðningsmanna Navalnys og stuðningsmanna stjórnvalda á Pushkin torgi í Mosvkvu og segir AFP fréttastofan það hafa verið augljósa tilraun til að eyðileggja mótmælafundinn.  

Lögreglan varaði mannfjöldann við því að valdi yrði beitt til að dreifa mannfjöldanum. Á meðal þess sem mótmælendur hrópuðu var: „Fjórða kjörtímabilið - í fangelsi“ og „Búin að fá nóg af þér“. 

Í St. Pétursborg söfnuðustu nokkur þúsund manns saman til mótmæla. AFP fréttastofan segir að þar hafi mátt heyra hrópað „Rússland verður frjálst“ og „Niður með keisarann.“ Á mótmælaskiltum hafi mátt lesa „Sex ár í viðbót af niðurlægingu“ og „Fyrir frelsi Internetsins.“

Stuðningsmenn Navalnys boðuðu til mótmælanna eftir hvatningu frá honum og höfðu ekki fengist leyfi fyrir útifundunum. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV