„Ég var bókaður á Hvannadalshnúk bara á mánudag, eftir tvo daga, og við ákváðum að slaufa því að fara með viðskiptavini á Hvannadalshnúk á meðan þetta ástand er í gangi,“ segir Einar.
„Auðvitað erum við öll að hugsa um þetta,“ segir hann, þótt hann gangi ekki svo langt að segja að fólk sé óttaslegið. „Það þýðir svo sem ekkert að missa svefn yfir þessu. Við ætlum bara að treysta almannavörnum til að vara okkur við og hafa áhyggjurnar – það þýðir ekkert að við séum öll að hafa þær áhyggjur.“
Einar segir að haldinn hafi verið fundur nýverið með fólki í sveitinni þar sem farið var ýtarlega yfir rýmingaráætlanir. „Ég segi ekki að ég sofi í fötunum, en maður grínast með það,“ segir hann, og bætir við að hingað til hafi hann alltaf hugsað með sér að ef jökullinn bærði almennilega á sér mundi hann bara keyra beint í austur og í burtu. „En núna kemur jarðhitaáin einmitt austan við okkur og fyrsta flóðið mundi líklega vera þar þannig að maður þarf að hugsa það svolítið upp á nýtt.“