Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aldrei minna í Hálslóni

20.05.2014 - 10:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Vatnsborð Hálslóns Kárahnjúkavirkjunar hefur aldrei verið lægra og er nú næstum 22 metrum lægra en í meðalári. Í fyrra var vatnsborðið lægst þann 28. maí eða 570,111 metra yfir sjávarmáli en þá voraði óvenju seint. Í ár lækkaði vatnsborðið niður í um það bil sömu stöðu 17. maí eða 11 dögum fyrr.

Ástæðan er meðal annars sú að aflvélar í Fljótsdalsstöð sem ganga fyrir fallvatni úr Hálslóni voru keyrðar á auknum afköstum í vetur. Það var gert til að hægt væri að senda orku í aðra landshluta vegna slæmrar vatnsstöðu í Blöndulóni og Þórisvatni. Nú hefur vatnsstaðan þar batnað en áfram lækkar í Hálslóni. Aflvélar í Fljótsdalstöð keyra á skertum afköstum til að spara vatnið og nú  20. maí er vatnsborðið í 569,531 metra yfir sjávarmáli eða 56 sentimetrum lægra en það var lægst í fyrra.  Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun væntir fyrirtækið þess að innrennsli í lónið aukist í vikunni og að verulega hægi á niðurdrætti. Hönnun virkjunarinnar gerir ráð fyrir því að vatnborðið fari ekki niður fyrir 550 metra yfir sjávarmáli.