Í Hæpinu á RÚV í kvöld er fjallað um jákvæðar og neikvæðar birtingamyndir þjóðerniskenndar. Meðal viðmælenda í þættinum er Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri.
Þunn lína á milli aðlögunarhæfni og tækifærismennsku
Jón telur að Íslendingar séu almennt séð ekki rasistar. „Mér hefur ekki fundist það. Þeir geta verið fordómafullir … Það pirrar mig en mér hefur fundist það vera einhver fíflagangur eða eitthvað bull, sem hægt er að leiðrétta. Þeir eru meira áhugasamir. Það hefur mér alltaf þótt vænt um við íslenskan kúltúr, hvað hann er laus við rasisma,“ segir Jón. Umræðan undanfarin misseri, t.d. varðandi moskumálið, hefur þó farið fyrir brjóstið á honum.
Hann hefur trú á því þessi mál muni leysast, enda búi Íslendingar yfir einstakri aðlögunarhæfni. „Sem þjóð erum við svo fljót að aðlagast breytingum, og meðtaka. Við erum bænda- og sjómannasamfélag sem allt í einu verður siðmenntað borgarsamfélag. Svo allt í einu verðum við fjármála-eitthvað, og nú erum við orðið túristaland. Við erum svo fljót að aðlaga okkur og það er bara hluti af því að komast af á þessu landi. En það er þunn lína á milli aðlögunarhæfni og tækifærismennsku.“
Stoltur af því að vera hluti af svona hugrökku fólki
Þessi aðlögunarhæfni segir Jón að sé eitt aðal einkenni Íslendinga og nefnir sem dæmi réttindi samkynhneigðra. „Þegar ég var unglingur var ofsalega erfitt fyrir fólk að vera samkynhneigt. Svo bara gjörbreyttist þetta og í dag er Ísland eitt mest gay-friendly land í heimi. Veistu hvað ég held að hafi breytt því mest? Páll Óskar. Ég held að Páll Óskar hafi breytt því mest. Það þarf oft svo lítið. Það kemur bara einhver listamaður, einhver sem er afgerandi og hugrakkur, og bara breytir.“
„Og þegar við kusum Vigdísi sem forseta. Fyrsti lýðræðislega kjörni forsetinn í heiminum sem er kona. Þetta finnst mér vera hluti af minni þjóðerniskennd. Ég er stoltur af því að vera hluti af svona hugrökku fólki,“ segir Jón, og tárast örlítið.
Hæpið er á dagskrá RÚV í kvöld kl. 20.10.