Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Aldrei fleiri útköll á flugvél og þyrlur

03.01.2019 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: Hreggviður Símonarson - Landhelgisgæslan
Flugvél og þyrlur Landhelgisgæslunnar fóru í 278 útköll á nýliðnu ári og hafa þau aldrei verið fleiri. Það er um 8 prósent aukning frá árinu 2017 en þá fóru þyrlur og flugvél stofnunarinnar í 257 útköll. Strax í nóvember hafði met fyrra árs fallið en á síðasta ári voru 180 sjúkir eða slasaðir fluttir með loftförunum.

Helmingur þeirra voru erlendir ríkisborgarar. Útköllin hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og eru tæplega 74 prósent fleiri en árið 2011 þegar þau voru 160.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að metfjöldi útkalla komi Landhelgisgæslunni ekki á óvart sé tekið mið af þróun síðastliðinna ára.

Alls fóru loftförin TF-LIF, TF-GNA, TF-SYN og TF-SIF í 731 flugferð á nýliðnu ári en flugferðirnar voru 628 árið 2017.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV