Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Aldrei fleiri fíkniefnamál á Þjóðhátíð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aldrei hafa fleiri fíkniefnamál komið til kasta lögreglu á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en nú. Alls komu upp um 70 fíkniefnamál um helgina og var langmest tekið af amfetamíni og kókaíni en mun minna af kannabisefnum en á fyrri hátíðum. Flest málin snúa að sölu fíkniefna.

Lögreglan telur að ástæðan fyrir þessum mikla málafjölda sé að farið var í átak til að sporna gegn eiturlyfjasölu og neyslu. Sex lögreglumenn og þrír fíkniefnaleitarhundar sinntu eftirlitinu um helgina. Þetta kemur fram í yfirliti Lögreglunnar í Vestmannaeyjum að lokinni Þjóðhátíð. Þar segir lögreglan að Þjóðhátíð hafi farið vel fram miðað við þann fjölda sem tók þátt og áætlar að um fimmtán þúsund manns hafi hlýtt á Brekkusöng í gærkvöld. Engar alvarlegar líkamsárásir hafa verið kærðar, nokkrar minni árásir komu inn á borð lögreglu en ekki er ljóst hvort lagðar verði fram kærur í þeim málum. Einn gisti fangaklefa í nótt eftir að lögreglumenn urðu vitni að líkamsárás í Herjólfsdal og handtóku árásarmanninn sem hafði skallað konu í andlitið.