Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Aldrei fleiri barnaníðingar í fangelsi

18.02.2013 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Verði stór hluti þeirra, sem sæta nú rannsókn vegna kynferðisbrota, sakfelldur verða fangelsi landsins skjótt yfirfull. Barnaníðingar sem sitja inni hafa aldrei verið fleiri. 26 sitja í fangelsi hér á landi vegna kynferðisbrota, þar af ellefu barnaníðingar.

Árið 2000 sat einn barnaníðingur inni. Af þeim 77  föngum, sem eru á Litla-Hrauni, eru níu barnaníðingar. Því er áttundi hver fangi dæmdur fyrir barnaníð. 

Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir að gríðarleg aukning hafi orðið á þessum málum, þetta sé í einu orði sagt svakaleg breyting. Þessi fjölgun hefur orðið jafnt og þétt síðastliðinn áratug.  Þó er ótalin sú holskefla barnaníðsmála sem bæst hefur við frá áramótum.  Ýmislegt skýrir þessa fjölgun. Páll telur að menn séu orðnir meðvitaðri um þetta, löggæsla sé betri og dómarnir þyngri. Menn séu að fá óskilorðsbundna dóma og allt upp í átta ár.

Þekkt er að kynferðisbrotamönnum sé misþyrmt í fangelsum og því er gripið til ýmissa ráðstafana. Páll segir að barnaníðingar séu neðarlega í valdapíramídanum innan fangelsisins og það sé því þeirra að gæta öryggis þeirra. Þeir séu því á sérgangi og dreift á milli fangelsa.

Velta má fyrir sér hvort fangelsi hér á landi ráði við þann fjölda fanga sem við kann að bætast þegar dæmt verður í þeim tugum mála sem nú eru í rannsókn. Páll segir erfitt að spá fyrir um framtíðina, nú standi til að byggja fangelsi sem verði mjög litlar einingar, allt niður í fjögurra manna einingar og það muni hjálpa fangelsismálastofnun mikið. En ef það komi mikið úr þessum 120 rannsóknum þá verði þetta snúið, þá gæti biðlistinn verið allt að 400 til 500 manns.

Sú staða gæti orðið til þess að hlutfall barnaníðinga aukist enn frekar innan veggja fangelsanna þar sem slíkir menn séu alltaf í forgangi.