Aldrei fleiri á flótta frá stríði og ofsóknum

19.06.2018 - 07:24
epa06817175 Children of the choir ‘Corazon de Jolie’ perform in Sao Paulo, Brazil, 17 June 2018. The choir from the non-governmental organization IKMR,  is made of children, between the ages of 4 and 12 years-old, and are refugees from Afghanistan, Angola
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Aldrei hafa fleiri verið á flótta undan stríði, ofbeldi og ofsóknum en nú. Nær 69 milljónir eru á flótta samkvæmt nýjum tölum Flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Í lok síðasta árs voru þremur milljónum fleiri á flótta undan stríði og ofsóknum í heiminum en í ársbyrjun. Á áratug hefur þeim sem eru á flótta fjölgað um 25 milljónir, eða fimmtíu prósent frá því sem var fyrir tíu árum síðan. Sjötíu prósent þeirra sem eru á flótta koma frá tíu löndum.

Rúmlega helmingur flóttamanna hefur leitað sér skjóls innan eigin landamæra, samkvæmt nýrri skýrslu Flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Þar munar mest um Kólumbíu, Sýrland og Lýðveldið Kongó. Sýrlendingar eru hátt í þriðjungur þeirra sem hrakist hafa á flótta milli landa.

Alls hröktust sextán milljónir frá heimilum sínum eða dvalarstað á síðasta ári. Það jafngildir því að 45 þúsund manns, jafnmargir og allir Hafnfirðingar og Garðbæingar, hafi lagt á flótta dag hvern í fyrra.

Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, segir að komið sé að vatnaskilum. Nú þurfi nýjar og umfangsmeiri aðgerðir til að tryggja að einstök ríki og samfélög glími ekki ein við flóttamannavandann. Hann sagði að ef hægt væri að binda enda á átök í tíu ríkjum, eða í það minnsta hluta þeirra, væri hægt að snúa fjölguninni við. Til þess þyrfti pólitískan vilja.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi