Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Aldrei fleiri á Everest-tind en 2018

23.08.2018 - 03:19
Erlent · Asía · Nepal · Tíbet
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
807 manns komust alla leið upp á hæsta tind Jarðar, tindinn á Mount Everest, á klifurtímabili þessa árs, og hafa aldrei verið fleiri. Almennt má segja að klifurtímabilið standi frá apríllokum fram í júníbyrjun, en í ár var einungis hægt að fara upp fjallið seinnihluta maímánaðar. Fyrra met var sett 2013, þegar 665 manns komust á tindinn. Í vor fóru 563 upp fjallið að sunnanverðu, í Nepal, en 244 komust á tindinn norðanmegin frá, í Tíbet. Yfirvöld beggja landa staðfestu þessar tölur 16. ágúst.

Tveir nepalskir Sherpar bættu eigin met í Everestklifri; hinn 48 ára Kami Rita Sherpa sló öll met þegar hann fór á tindinn tuttugasta og öðru sinni og Lhakpa Sherpa, 44 ára, sló eigið kvennamet þegar hún kleif fjallið í níunda skiptið. Fimm manns týndu lífi er þeir reyndu að komast á toppinn, þar á meðal þaulreyndur Sherpa sem hrapaði til bana þegar björgunarþyrla kom of nærri honum í hlíðum fjallsins.

Af þeim 563 sem fóru upp fjallið sunnanvert voru 302 Sherpar, eða nepalskir fjallaleiðsögumenn, en sambærilegar tölur er ekki að fá frá Tíbet. Af öðrum Everestförum voru Indverjar fjölmennastir, eða 51; 49 komu frá Bandaríkjunum og 47 frá Kína. Í hópi þeirra síðastnefndu var hinn sjötugi og fótalausi Xia Boya, sem þurfti að fara með sitt mál fyrir hæstarétt í Nepal til að fá að reyna við fjalladrottninguna, en nepölsk yfirvöld höfðu lagt blátt bann við því að fótalaust fólk fengi að klífa hæstu tinda landsins. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV