Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Aldrei ætlað að opna sjávarútvegskafla

08.04.2014 - 10:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, gagnrýnir framkvæmd nýrrar skýrslu Alþjóðamálastofnunar um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Hann segir að ESB hafði aldrei ætlað sér að opna kaflann um sjávarútvegsmálin, en í skýrslunni segir að málið hafi aðalega strandað á makríldeilunni.

„Af hverju skildi hann nú fimm árum síðar enn vera óopnaður? Það er vegna þess að ESB ætlaði aldrei að opna hann, því það er kafli sem við náum aldrei saman um,“ sagði Sigurður Ingi.

Í skýrslunni segir að hægt sé að ná þessu fram án undanþága eða sérlausna, til dæmis með því að setja svipuð skilyrði eins og gert sé í löggjöf Breta og Dana til þess að koma í veg fyrir svokallað kvótahopp.

„Mér finnst mjög áhugavert að sjá að það er verið að fabúlera um eitt eða annað sem við höfum heyrt,“ segir Sigurður Ingi. „En af hverju erum við þá enn stödd með lokaðan kafla sem enginn vill tala um og það eru bara einhverjar getgátur, þar sem er vitnað í mann á göngunum í Brussell og bók Össurar og svo framvegis. Af hverju er ekki vitnað til staðfestra heimilda um að svona hafi það verið gert og svona sé þetta? Það er vegna þess að það hefur aldrei verið gert.“