Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aldargömul ölgerð

17.04.2013 - 18:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Ölgerðin hélt upp á hundrað ára afmæli sitt í dag. Stefán Pálsson sagnfræðingur segir ekki ólíklegt að menn, sem notuðu malt sem magalyf, hafi tekið upp á því að blanda því saman við appelsín, þar sem þeim hafi þótt óviðeigandi að drekka magalyfið með jólamatnum.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Tómas Tómasson, stofnandi Ölgerðarinnar, hóf að framleiða íslenskt léttöl í litlu herbergi við Templarasund fyrir hundrað árum, þá 25 ára gamall. Framleiðslan var ekki stór í sniðum í fyrstu en á örskömmum tíma hafði Tómasi tekist ætlunarverk sitt, að ryðja af markaði danska léttölinu.

„Þetta óx hratt og á mjög skömmum tíma þá ryður íslenska ölið, maltölið og hvítölið, því danska í burtu. Og svo síðar fylgir pilsnerinn á eftir og þá verða Íslendingar sjálfum sér nógir í léttöli,“ segir Stefán.

Ölgerðin fór þó ekki að framleiða gosdrykki fyrr en 1930 og 25 árum síðar, árið 1955, leit Egils Appelsínið dagsins ljós. „Og eins og hér, byrjaði það smátt í sniðum. Sextán ára drengur var ráðinn í það að hræra saman efnum og tappa á flöskur. Sá sami piltur, Sigurður Sveinsson, finnur síðan upp Appelsínið 25 árum síðar, 1955, og það verður íslenski þjóðargosdrykkurinn.“

Stefán segir ekki vitað með neinni vissu hvenær menn fóru að blanda saman malti og appelsíni, það sé þekkt hefð víða í Evrópu að blanda saman léttu öli og gosdrykkjum. Mönnum hafi kannski þótt maltið of dýrt og því gripið til þessa ráðs í sparnaðarskyni. „Maltölið var öðrum þræði talið vera lækningarlyf. Má ekki gleyma því að menn voru ekkert að gantast með það að það gæfi hraustlegt og gott útlit og bætti meltinguna. Þetta var ómissandi á öllum sjúkrastofnunum. Og kannski hefur mönnum þótt óviðeigandi að drekka magalyfið sitt, óblandað, á jólunum, það er ekki gott að segja.“