Álagning veiðigjalds færð nær í tíma

25.09.2018 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um veiðigjald. Meginmarkmið frumvarpsins er að færa álagningu veiðigjalds nær í tíma þannig að gjaldtakan sé meira í takt við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja, stjórnsýsla með álagningu veiðigjalds verður einfaldari, skilvirkari, gegnsærri og áreiðanlegri. Kristján Þór segir að þegar nýja aðferðin er bakreiknuð sjáist að hún hefði skilað nær sömu veiðigöldum síðasta áratuginn og núverandi lög.

Með frumvarpinu á að lagfæra annmarka á álagningu veiðigjalds, færa útreikninga nær í tíma og ákveða veiðigjald fyrir almanaksár.

Snýst hvorki um að hækka gjöld né lækka

Kristján Þór kynnti þingflokkum stjórnarflokkanna frumvarpið í gær og stjórnarandstöðuflokkunum fyrr í dag. Hann segir markmiðið vera að sníða ágalla af núverandi löggjöf um álagningu veiðigjalds. „Þetta frumvarp snýst hvorki um að hækka eða lækka veiðigjaldið,“ sagði Kristján Þór á blaðamannafundi síðdegis. Hann sagði markmiðið að gera lögin gagnsærri og tryggja að álagning byggi á nýrri gögnum en verið hefur. Ákvörðun veiðigjalda verður þannig byggð á árs gömlum gögnum um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja í stað um tveggja ára líkt og nú er.

Kristján Þór sagðist treysta sér til að kenna útreikninga á veiðigjaldi samkvæmt frumvarpinu á tíu mínútum en sennilega þyrfti hann nokkra daga til að kenna útreikninga eins og lögin séu nú.

Þá verður útreikningur veiðigjalds og álagning færð til Ríkisskattstjóra og veiðigjaldanefnd lögð niður.

Þá verður veiðigjald eingöngu lagt á veiðar, þannig að hagnaður fiskvinnslu komi ekki til útreiknings veiðigjalds líkt og nú er. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að núverandi fyrirkomulag hafi verið gagnrýnt, meðal annars á þeirri forsendu að fiskvinnsla sé ekki hluti af auðlindanýtingu.

Einnig verður tillit tekið til fjárfestinga í sjávarútvegi við útreikning á gjaldstofni veiðigjalds enda felast sameiginlegir hagsmunir ríkisins og útgerðar til langframa í öflugum fjárfestingum.

Kristján Þór sagði á blaðamannafundinum í dag að ekki verði hægt að beita reglum frumvarpsins á næsta ári. Þá verði að notast við blöndu af núgildandi löggjöf og frumvarpinu. „Þetta er sett inn sem bráðabirgðaákvæði inn í frumvarpið til eins árs.“

Hefði munað hálfum milljarði á síðustu árum

Kristján Þór fór yfir innheimtu veiðigjalda síðustu ár og sagði að þau hefðu verið sveiflukennd. Gjaldhlutfallið hefði þó verið 33 prósent að meðaltali. Hann sagði að með því að bakreikna frumvarpið væri útkoman svipuð á árunum 2009 til 2018 hvor aðferðin sem væri notuð. Munurinn væri um hálfur milljarður króna og fælist í því að nýja kerfið hefði skilað hærri veiðigjöldum á tímabilinu. Þannig hefðu veiðigjöld orðið rúmir 64 milljarðar á tímabilinu samkvæmt reikniaðferð frumvarpsins.

Sama hvort mönnum líkar betur eða verr eru veiðigjöld komin til að vera. Nú þrasa menn ekki um hvort innheimta eigi veiðigjald heldur hversu hátt það eigi að vera, sagði Kristján Þór. Auk þessa greiði sjávarútvegsfyrirtækin fullt af öðrum sköttum sagði hann.

Fer hringferð að ræða við fólk í sjávarútvegi

Kristján Þór ætlar að fara og ræða við fólk í sjávarútvegi í næsta mánuði, upp úr 10. október. Hann sagðist hafa farið rangsælis hringinn um landið þegar hann fór að ræða við sauðfjárbændur og nú hygðist hann fara réttsælis.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi