Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Álagning á bensín hærri þrátt fyrir lægra verð

28.11.2018 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Álagning olíufélaganna á bensín er tíu krónum hærri á lítra en í upphafi árs og er nú fimm krónum hærri en meðalálagning ársins, samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB. Meðalálagningin það sem af er þessum mánuði sé fjórum krónum hærri en í október. Lækkun á verði hér á landi heldur ekki í við lækkun á hráolíuverði á heimsmarkaði, segir framkvæmdastjóri félagsins.

Fram kom í Hagsjá Landsbankans í dag að snarfallandi olíuverð á heimsmarkaði skilaði sér sennilega í lægra bensínverði, styddi við gengi krónunnar og minnkaði verðbólgu hér á landi.

Freistandi að skila ekki verðlækkun til neytenda

„Það sem við höfum gagnrýnt er að hér er fákeppnin með þeim hætti að það sér enginn tækifæri í því þegar heimsverðið lækkar,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. Hefð sé fyrir því hér á landi að verðhækkanir á bensíni skili sér hraðar og betur en verðlækkanir til lengri tíma litið. „Það var ekki fyrr en fjölmiðlar fóru að fjalla um þetta að félögin lækkuðu verðið,“ segir Runólfur. Þar hafi þrýstingur frá fjölmiðlum og neytendum skipt höfuðmáli. „Freistingin um að skila ekki verðlækkuninni til neytenda er alltaf til staðar í svona fákeppnisumhverfi.“ 

Hann segir að vissulega skipti skattar og gengi krónunnar máli, eins og Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, benti á í viðtali við RÚV um helgina. „Hinir þættirnir sem ráða útsöluverði á bensíni eru verð á heimsmarkaði og álagning olíufélaganna, sem Eggert minnist ekki á.“

Þvert á yfirlýsingar N1 um lægra verð

Hann segir að upplifun neytenda af olíuverðinu núna á haustmánuðum sé þvert á yfirlýsingar N1 um hagræðingu og lægra verð sem átti að fylgja samruna félagsins við Festi. Samkvæmt frummati Samkeppniseftirlitsins á kaupum N1 á Festi, sem rekur meðal annars Krónuna og Nóatún, áttu kaupin eftir að raska samkeppni en kaupin voru heimiluð að vissum skilyrðum uppfylltum.

Útreikningar FÍB miðast við daglega þróun heimsmarkaðsverðs á bensíni og dísilolíu á Norðvestur-Evrópumarkaði, miðgengi Seðlabanka Íslands á bandaríkjadal og sjálfsafgreiðsluverð á bensíni og dísilolíu á þjónustustöðvum olíufélaganna. Runólfur segir að mikið liggi undir þegar bensínverð beri á góma, enda skili hver króna til eða frá sér í ríkulegum upphæðum. „Ef þú lækkar lítraverð um eina krónu skilar það sér sem 360 milljónir til neytenda á einu ári,“ segir hann.