Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ákvörðunar um blóðgjöf að vænta fljótlega

04.10.2018 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Gert er ráð fyrir að ákveðið verði fljótlega hvort leyfa eigi samkynhneigðum körlum að gefa blóð hér á landi, samkvæmt upplýsingum frá Velferðarráðuneytinu. Sóttvarnalæknir telur að vel komi til greina að leyfa samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð að undangengnu sex mánaða kynlífsbindindi. Reynsla og áhættumat annarra þjóða sýni að með vandaðri skimun blóðs sé lítil eða nánast engin hætta á blóðbornu smiti með slíku fyrirkomulagi.

Velferðarráðuneytið óskaði eftir mati sóttvarnarlæknis í sumar. Síðustu tveir heilbrigðisráðherrar hafa verið hlynntir endurskoðun á reglunum. Kristján Þór Júlíusson sagðist þegar hann var heilbrigðisráðherra árið 2015 vilja leita leiða til að breyta reglum þannig að samkynhneigðum körlum yrði heimilt að gefa blóð. Forveri Svandísar í embætti, Óttarr Proppé, tók í sama streng í fyrra og sagði að ástæða væri til að endurskoða reglurnar.

Samkvæmt upplýsingum úr velferðarráðuneytinu er málið í vinnslu og gert ráð fyrir að ákvörðun liggi fyrir fljótlega með hliðsjón af ráðleggingum fagaðila eins og sóttvarnalæknis og annarra.