Ákvörðun um Borgarlínu vísað til bæjarstjórnar

Mynd með færslu
 Mynd:
Ákvörðun um þátttöku Seltjarnarnesbæjar samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um Borgarlínu og undirbúningsvinnu við framtíðaruppbyggingu samgöngumannvirkja var vísað til bæjarstjórnar á fundi bæjarráðs í morgun.

Fundinum lauk klukkan 10. Magnús Örn Guðmundsson, formaður bæjarráðs og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Seltjarnarness, er andvígur því að ganga eigi til samninga við hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um verkefnið.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði, er hins vegar fylgjandi samstarfinu. Bæði Guðmundur Ari og Magnús Örn létu bóka afstöðu sína á fundi bæjarráðs.

Samtök sveitarfélaga höfuðborgarsvæðinu, þar sem Seltjarnarnes er þátttakandi, hafa staðið að undirbúningi og stefnumótun um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Nú hefur verið gengið til samninga við ríkið um fjármögnun fyrstu stiga verkefnisins. Ríkið borgar helming til móts við sveitarfélögin.

Skipta kostnaði milli sveitarfélaga

Tillagan sem nú er til umræðu í stjórnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu snýst um fjármögnun verkefnisins til næstu tveggja ára þar sem undirbúa á Borgarlínuna, almenningssamgöngukerfi sem tengja á mismunandi borgarhluta á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða 1,6 milljarða verkefni í þessum fasa. Ríkið stendur straum af helmingi kostnaðarins og sveitarfélögin hinum helmingnum; Um 800 milljónir hvor.

Áætlað er að skipta kostnaði sveitarfélaganna jafnt miðað við íbúafjölda hvers sveitarfélags. Seltjarnarnes mun þess vegna þurfa að greiða um 16 milljónir króna til þess að taka þátt í kostnaðinum.

Skiptar skoðanir

„Seltjarnarnes hefur tekið þátt í þessari undirbúningsvinnu frá upphafi, en þegar það kemur reikningur fer allt í lás,“ segir Guðmundur Ari í samtali við fréttastofu. Honum finnst það vera glapræði að bærinn taki ekki þátt í samstarfi um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Magnús Örn er andvígur hugmyndum um Borgarlínuna og telur þær óraunhæfar eins og þær liggja fyrir, „ekki síst forsendur um heildarkostnað við verkefnið, áætlaða nýtingu og rekstrarkostnað,“ skrifar Magnús Örn í bókun sinni.

Þrír sitja í bæjarráði Seltjarnarnesbæjar. Auk Magnúsar Arnar og Guðmundar Ara er Sigrún Edda Jónsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Sjö sitja í bæjarstjórninni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur meirihluta með fjóra fulltrúa, Samfylkingin hefur tvo og Viðreisn/Neslistinn einn.

Lagfært kl. 19:38 - Upphaflega var sagt að verkefnið sem bæjarstjórn Seltjarnarness þarf að fjalla um snúist um að laga umferðargötur, hjólastíga og strætóleiðir til þess að efla samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Hið rétta er að verkefnið snýr að fjárveitingum sveitarfélaga vegna „undirbúningsverkefna vegna Borgarlínu á árinu 2019 og 2020“ og samningum við Vegagerðina um framkvæmdir vegna Borgarlínuna.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi