Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ákveðin stefna að tæma ríkisjarðir

24.04.2017 - 15:18
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Oddviti Skaftárhrepps gagnrýnir að ríkið hafi tekið sér mörg ár í að móta stefnu um ríkisjarðir. Á meðan fari góðar bújarðir í eyði vegna þess að þær séu ekki auglýstar. Áralangt aðgerðaleysi feli í raun í sér stefnu um að fækka bújörðum.

Á landinu öllu eru um hundrað ríkisjarðir enn í ábúð en ríkið hefur um alllangt skeið ekki auglýst að nýju, bújarðir sem losna úr ábúð. Ástæðan er sögð stefnumótunarvinna Fjármálaráðuneytisins um hvernig fari skuli með jarðirnar. Þetta veldur því að bændur sem bregða búi á ríkisjörðum geta ekki selt bústofn og vélar í hendur nýjum bónda og hætt er við því að tún fari í órækt. Verði rof á búskap aukast líkur á að hann leggist af. Bæjarstjórn Fljótdalshéraðs hefur ályktað um málið og hvatt ríkið til að auglýsa jarðir sem losna.

Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps, gagnrýnir að ríkið hafi árum saman horft upp á jarðir fara í eyði án þess að þær séu auglýstar. Hvergi á landinu er hlutfall ríkisjarða hærra en í Skaftárhreppi, en fjöldi þeirra er í Meðallandi, suður af Kirkjubæjarklaustri. „Flestar eða mjög stór hluti af þeim er kominn í eyði. Þrátt fyrir leiðir til þess að selja og setja aftur á ábúð og auglýsa þá hefur það ekki verið gert. Stjórnvöld hafa hingað til borið fyrir sig að það sé stefnumótunarvinna í gangi. En sú stefnumótunarvinna hefur verið í gangi í einhver ár. Mér finnst það vera ákveðin stefna að gera ekki neitt. Það er svona ákveðin stefna í gangi þá að halda þessu jörðum í eyði, það er ákveðin stefna,“ segir Eva.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu vinnur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að skýrslu um ríkisjarðir fyrir Fjármálaráðuneytið. Sigurður Jóhannesson forstöðumaður hagfræðistofnunar segir þá vinnu hafa farið í gang í haust og að skýrslan verði tilbúin á næstu vikum.

Eva Björk segir mikið í húfi í Skaftárhreppi. „Þetta sveitarfélag samanstendur af landbúnaði og ferðaþjónustu. Það eru aðal atvinnuvegirnir okkar.  Það verður erfiðara og erfiðara með hverju árinu sem líður að taka við svona jörð. Í hvert skipti sem það fýkur járnplata af húsi; þú getur ímyndað þér skemmdirnar sem verða heilt ár á eftir. Og það má ekki gera við einu sinni, það má ekki halda við út af stefnumótun. Það er mjög sárt að horfa á góðar landbúnaðarjarðir lagðar í eyði.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV