Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ákveðið að Sunna komi heim á föstudag

24.01.2018 - 20:49
Mynd með færslu
 Mynd: Unnur Birgisdóttir - Facebook
Sunna Elvira Þorkelsdóttir, konan sem lamaðist þegar hún féll á milli hæða í heimahúsi í Marbella á Spáni í síðustu viku kemur heim til Íslands á föstudag. Hún kemur með lítilli einkaþotu sem sérhæfir sig í sjúkraflugi á milli landa en flugvélin mun fljúga frá Malaga og lenda á Reykjavíkurflugvelli. Um borð verða bæði læknir og hjúkrunarfræðingur sem og móðir Sunnu.

Þetta staðfestir Jón Kristinn Snæhólm, vinur fjölskyldu Sunnu. Hann segir að ekki sé eftir neinu að bíða og ef það standi eitthvað út af þá verði það bara leyst. „En þetta virðist vera að leysast farsællega,“ segir Jón Kristinn en tekur fram að söfnuninni sé ekki lokið, það sé einfaldlega brýnt að Sunna komist heim sem allra fyrst.

Jón Kristinn segir að tekin verði á leigu sérstök einkaþota sem sérhæfi sig í slíkum sjúkraflutningum.  Góð samskipti hafi verið við starfsfólk Landspítalans og þar séu menn undirbúnir. 

Mál Sunnu vakti mikla athygli en maðurinn hennar var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.  Honum hefur nú verið sleppt og Jón Kristinn segir að samkvæmt sínum upplýsingum hafi hann ekki lengur stöðu grunaðs manns og sé ekki talin tengjast slysinu á neinn hátt.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV