Akstursgreiðslur ekki til að kíkja í kaffi

15.02.2018 - 22:23
Mynd: RÚV / RÚV
Samkvæmt reglum um akstursgreiðslur til þingmanna á að endurgreiða kostnaðinn þegar þeir eru að sinna starfi sínu sem þingmenn. Sérstaklega er tilgreint í reglunum að greiðslurnar séu vegna funda sem þingmennirnir eru boðaðir á en ekki þar sem þeir „detta í kaffi“. Þetta segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.

Endurgreiðsla á ferðakostnaði þingmanna sem aka á einkabílum hefur vakið upp spurningar um það hvort ekki sé eðlilegt að skýra með nákvæmum hætti frá þeim kostnaði sem alþingi leggur út fyrir vegna starfa þingmanna. Rætt var um málið við Björn Leví og Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis í Kastljósi í kvöld. „Lögum samkvæmt á að endurgreiða kostnað þingmanna sem eru að sinna starfi sínu og þá er sérstaklega tilgreint í reglum forsætisnefndar að það sé vegna funda sem þeir eru boðaðir á eða boðað er til en ekki þar sem þeir detta í kaffi.“ Því sé ekki óeðlilegt að opinbert sé upp til hvaða funda þingmenn séu boðaðir á, að mati Björns Leví.

Segir Alþingi seint til að nútímavæðast

Steingrímur segir að ekki hafi verið leynd yfir þessum upplýsingum hingað til, heldur frekar tregða við að veita þær. „Við höfum verið of sein til að færa meðferð þessara mála til nútímans í takt við kröfur dagsins um gagnsæi og upplýsingagjöf. Við verðum að viðurkenna að við erum svolítið sein til í þeim efnum. Alþingi Íslendinga hefur verið á eftir hinum Norðurlöndunum,“ segir hann og nefnir að Alþingi hafi einnig verið á eftir að innleiða reglur um hagsmunaskráningu og siðareglur.

Aksturskostnaður hækkar í kringum kosningar

Ásmundur Friðriksson, sá þingmaður sem fékk hæstu greiðslur í fyrra vegna aksturs, 4.600.000 krónur, hefur sagt að hann hafi einnig greitt þegar hann þarf að aka í kosningabaráttu. Steingrímur segir að það geti verið að í reglunum séu grá svæði sem þurfi að fara betur yfir. „Kosningabarátta hjá starfandi þingmönnum er hluti af stjórnmálum. Spurningin er hvort þeir eigi að bakka út úr þeim reglum sem um þá gilda sem þingmenn að öllu jöfnu þegar það er mánuður í kosningar og hafin prófkjör í þeirra flokki. Það eru svona álitamál sem ég tel nú vera grá svæði en óskyld erindi eiga að sjálfsögðu ekki erindi í þetta,“ segir Steingrímur.

Telur starf þingmanns og frambjóðanda ekki það sama

Björn Leví segir aftur á móti að sé augljóst að það að fara á framboðsfund sé ekki hluti af starfi þingmanns heldur frambjóðanda og það sé tvennt ólíkt. Fram hefur komið að kostnaður vegna aksturs þingmanna eykst í kosningabaráttu. Steingrímur segir að það geti verið erfitt fyrir þingmenn að skilja á milli þessara hlutverka, að vera þingmaður og frambjóðandi. „Ég vil í allri hógværð halda því til haga að við skulum nálgast þetta með virðingu fyrir því að er mjög mikilvægt að þingmönnum sér gert kleift að rækja samband sitt við kjósendur og umbjóðendur og sækja atburði þar sem óskað er eftir nærveru þeirra og það mun alltaf fylgja því umtalsverður kostnaður þegar í hlut eiga þingmenn í kjördæmum langt frá höfuðborgarinni,“ segir Steingrímur. Um málið eigi að gilda skýrar og gagnsæjar reglur og að forsætisnefnd Alþingis sé nú að skoða málið. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi