Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Akrópólis íslenskrar menningar sem aldrei varð

Mynd: Guðjón Samúelsson / Skipulag Reykjavíkur 1924

Akrópólis íslenskrar menningar sem aldrei varð

09.09.2016 - 11:25

Höfundar

Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, hafði háleitar hugmyndir um uppbyggingu á Skólavörðuholti fyrir um 100 árum síðan. Þar vildi hann að helstu menningarstofnanir landsins væru til húsa og þar myndi rísa einhverskonar háborg íslenskrar menningar.

Fjallað var um Guðjón Samúelsson og háborgina í Steinsteypuöldinni á RÚV. Þáttinn í heild má sjá í Sarpinum.

Fyrsta hugmynd Guðjóns um háborgina var frá árinu 1916. „Svo fer hann að vinna heildarskipulag Reykjavíkur 1924. Þá verður þessi svokallaða háborg mikilvægur hluti af þessu skipulagi. Það var semsagt hugmyndin um það að safna saman hinum opinberu menningarbyggingum sem þjóðin þurfti að byggja á þeim tíma, þ.e.a.s. háskóla, stúdentagarði, listasafni, þjóðminjasafni og samkomuhúsi, sem þess vegna hefði getað orðið þjóðleikhús. Safna þeim saman á einn stað, á efsta punkti borgarinnar, og mynda einhvers konar Akrópólis íslenskrar menningar,“ segir Pétur Ármansson, arkitekt.

Hugmyndin birtist fyrst árið 1924 í frétt í Morgunblaðinu, sem bar fyrirsögnina „Háborg íslenskrar menningar á Skólavörðuholti“, sem vakti talsverða athygli. „Í rauninni var þetta mjög skynsamleg og raunsæ hugmynd. Það þurfti að nema nýtt land fyrir þessar stofnanir og Reykjavík þurfti að taka á sig mynd sem höfuðborg. Flest allar þessar byggingar voru reistar næstu 10-20 árin á eftir. Þannig í rauninni var þessi hugmynd alls ekki eins mikil útópía og maður gæti ætlað.“

Árið 1930 ákvað borgarstjóri Reykjavíkur að bjóða ríkinu land á Melunum undir háskóla, þar sem lóðin sem honum var ætluð á Skólavörðuholti þótti of lítil. „Það má segja að það hafi verið banabiti háborgarinnar,“ segir Pétur

Tengdar fréttir

Menningarefni

Áratugur Guðjóns Samúelssonar

Menningarefni

„Ein magnaðasta ljósmynd í sögu Reykjavíkur“