Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Akranes íhugar að stytta vinnuvikuna

10.04.2018 - 16:52
Akranes, Vesturland, H0fn, höfnin, sílóin, síló, Faxaflói.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Bæjarráð Akraness hefur tilnefnt tvo bæjarfulltrúa í launalausan starfshóp um styttingu vinnuvikunnar. Reynsla Reykjavíkurborgar af styttingu vinnuvikunnar var kynnt á síðasta fundi bæjarráðs í lok mars.

Tillaga Ingibjargar Pálmadóttur um styttingu vinnuvikunnar var tekin fyrir en þar er miðað að því að styttingin valdi ekki umtalsverðum viðbótarkostnaði fyrir bæjarsjóð. Bæjarráð skipaði á fundinum Ingibjörgu og Ólaf Adolfsson í starfshópinn og fól bæjarstjóra að tilnefna fulltrúa úr hópi starfsmanna bæjarins til að taka sæti í starfshópnum. 

„Markmiðið er að auka starfsánægju, bæta lífsgæði og fækka veikindadögum. Þekkt er að mikið og stöðugt álag veikir almennt ónæmiskerfi líkamans og mótstöðu gegn líkamlegum sem andlegum veikindum.“

Þá segir í tillögunni að rannsóknir sýni að stytting vinnutíma án launaskerðingar bæti mjög líðan starfsmanna og um leið afkastagetu. 

Í tillögunni er sviðsstjórum og yfirmönnum stofnana bæjarins ætlað að leggja fram tillögur sínar í síðasta lagi í nóvember.