Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Akranes: Ástandið versnar með hverjum deginum

20.07.2018 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Álag á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi er mikið. Framkvæmdastjóri hjúkrunar segir að ástandið sé erfitt og verði verra með hverjum deginum sem líði. Ástandið er líka erfitt á Landspítala og hafa konur verið sendar þaðan til Akraness.

„Við reynum að gera það sem við getum til að aðstoða Landspítala en við náttúrulega verðum fyrst og fremst að sinna skjólstæðingum frá okkar svæði,“ segir Rósa Marinósdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar. Kristín Sigurðardóttir, fréttamaður, ræddi við hana í hádegisfréttum útvarps. Rósa segir að ástandið sé metið frá degi til dags og hvort hægt sé að taka við konum af Landspítala. Sú staða hefur komið upp að ekki hefur verið hægt að taka við konum þaðan.

Mikið álag er á ljósmæðrum á Akranesi, að sögn Rósu, og sótt hefur verið um undanþágu frá yfirvinnuverkfallinu sem hófst á miðnætti á þriðjudag. Fyrst var sótt um undanþágu á þriðjudag og svo er aftur búið að sækja um núna. 

Tvær af fjórtán ljósmæðrum á Akranesi hafa sagt upp störfum. Rósa segir ástandið þar slæmt. „Þetta er erfitt ástand og verður verra og verra eftir því sem dagarnir líða.“ Fólk verði þreyttara og áhyggjufyllra og foreldrar hringi mikið og spyrjist fyrir og stöðuna.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir