Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Akrahreppur ekki með í sameiningarviðræðum

13.09.2017 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Akrahreppur ætlar ekki að taka þátt í viðræðum um sameiningu sveitarfélaga á Norðurlandi vestra að svo stöddu. Oddviti sveitarfélagsins segist sjá rökin með sameiningu, en rétt sé að íbúar taki ákvörðun um málið.

Að undanförnu hafa verið þreifingar um sameiningu sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Skagafjörður og Skagabyggð hófu formlegar viðræður í sumar og buðu öðrum sveitarfélögum á svæðinu að taka þátt. Þau eru fimm talsins; Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Blönduós, Skagaströnd og Akrahreppur. Sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu hafa einnig fundað um mögulega sameiningu þeirra

Hafa hingað til ekki viljað sameinast

Á fundi byggðaráðs Skagafjarðar í síðustu viku var tekið fyrir bréf frá Akrahreppi þar sem hreppsnefnd afþakkar boð um þátttöku í sameiningarviðræðum Skagafjarðar og Skagabyggðar. 

Agnar Halldór Gunnarsson, oddviti Akrahrepps, segir í samtali við fréttastofu að íbúar og sveitarstjórnarmenn hafi hingað til ekki viljað sameinast öðrum. Nefnir hann að þegar öll sveitarfélög í Skagafirði voru sameinuð árið 1998 hafi Akrahreppur einn staðið fyrir utan.

Málið var tekið fyrir á fundi hreppsnefndar á dögunum og töldu allir að óæskilegt væri að hefja viðræður áður en vilji íbúa liggur fyrir. „Það hefur ekki farið fram nein könnun og ef menn ætla að taka þátt í sameiningarviðræðum er rétt að kanna hug íbúa áður,“ segir Agnar. 

Hann segist þó sjá rökin fyrir sameiningu. „Sveitarfélögin hafa tekið að sér mörg verkefni sem litlu sveitarfélögin ráða ekki við,“ segir Agnar og bætir við að sveitarfélagið samnýti flesta þjónustu með Skagafirði. Til stendur að halda hreppsfund á næstunni til að heyra hljóðið í íbúum varðandi sameiningar. Sé vilji til þess verði gerð formleg könnun meðal íbúa og þá verði hægt að taka ákvörðun um hvort sveitarfélagið taki þátt í viðræðum.