Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ákærur í Bandaríkjunum vegna Panama-skjala

05.12.2018 - 01:16
A marquee of the Arango Orillac Building lists the Mossack Fonseca law firm, in Panama City, Monday, April 4, 2016. Panama's president says his government will cooperate "vigorously" with any judicial investigation arising from the leak of
 Mynd: AP
Bandaríkjastjórn ákærði í dag fjóra menn fyrir peningaþvætti og skattaundanskot í gegnu aflandsfyrirtæki í Panama. Þetta eru fyrstu málin sem fara fyrir dómstóla í Bandaríkjunum í tengslum við Panamaskjölin svonefndu.

Fjórmenningarnir voru allir í viðskiptum við lögfræðistofuna Mossack Fonseca. Hún aðstoðaði þúsundir viðskiptavina um allan heim við að koma fjármunum á aflandsreikninga, til dæmis til þess að forðast að greiða af þeim skatta í heimalandinu. Einn hinna ákærðu er Ramses Owens, fimmtugur lögmaður sem vann fyrir Mossack Fonseca. Dirk Brauer stjórnandi fjárfestingadeildar Mossfon Asset Management, fyrirtæki nátengdu Mossack Fonseca, var einnig ákærður. Þeir tveir eru sakaðir um að hafa markaðssett, búið til og stýrt skúffufyrirtækjum fyrir hönd viðskiptavina sem vildu hylja eignir frá bandarískum skattayfirvöldum. Richard Gaffey og Harald Joachim Von Der Goltz eru sakaðir um að hafa komið Bandaríkjamönnum í samband við Mossack Fonseca og aðstoðað þá við að stofna reikninga hjá lögmannsstofunni. AFP fréttastofan hefur eftir skrifstofu saksóknara að Brauer hafi verið handtekinn í París 15. nóvember, Van Der Goltz í Lundúnum í gær og Gaffey í Boston í dag. Owens hfeur ekki fundist enn.

Bandaríski lögmaðurinn Geoffrey Berman segir í samtali við AFP að sakborningarnir virðist hafa lagt mikið á sig til þess að komast framhjá bandarískum skattalögum. Allt til þess að viðhalda auði sínum og skjólstæðinga sinna. Nú sé alþjóðlegri skattsvikastefnu þeirra lokið og þeirra bíði löng fangavist.

Upp komst um starfsemi Mossack Fonseca árið 2016 þegar milljónum skjala var lekið til alþjóðarannsóknarblaðamannafélagsins ICIJ. Félagið vann með fjölmiðlum um allan heim við að vinna úr skjölunum þar sem nöfn ýmissa áhrifamanna komu fram. Meðal þeirra var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, en hann hrökklaðist úr embætti eftir að upp komst um aflandsfyrirtækið Wintris sem var í eigu hans og eiginkonu hans. Nafn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra kom einnig fyrir í skjölunum sem og fjölda annarra íslenskra stjórnmála- og viðskiptamanna. Þá voru nöfn tengd þjóðarleiðtogum á borð við Vladimír Pútín Rússlandsforseta og Xi Jinping forseta Kína að finna í skjölunum auk margra fleiri. 

Þýska lögreglan gerði húsleit á skrifstofum Deutsche Bank í Frankfurt í síðustu viku vegna ætlaðs peningaþvættis og skattaundanskota sem einnig tengjast Panamaskjölunum.