Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ákærður fyrir þyrluflug með Gogu við Holuhraun

05.01.2016 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Þyrluflugmaður hefur verið ákærður fyrir að lenda þrisvar með farþega og hleypa þeim út á bannsvæði meðan á eldgosinu í Holuhrauni stóð. Brotin uppgötvuðust þegar auðkýfingur birti mynd af sér og félögum sínum nærri eldstöðinni.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur ákært þyrluflugmann fyrir að fljúga með farþega inn á svæði, við eldstöðvarnar í Holuhrauni, sem búið var að loka fyrir allri umferð. Mál flugmannsins verður þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra í næstu viku.

Samkvæmt ákærunni flaug flugmaðurinn þrisvar inn á bannsvæðið með farþega, lenti þar í leyfisleysi og hleypti fólkinu út. Fyrri tvö skiptin sem ákært er fyrir voru í byrjun september 2014 en það þriðja snemma í október sama ár. Það var einmitt þriðja atvikið sem varð til þess að upp komst um málið.

Auðkýfingurinn Goga Ashkenazi var þar á ferð með vinafólki sínu. Tveimur dögum síðar var hún búin að birta myndband af sér þar sem ferðalangarnir sáust skemmta sér og dansa í hrauninu með eldstöðina í bakgrunni. Að því er fram kemur í ákærunni var þyrlunni þá lent átján kílómetra frá eldstöðinni. Ekki kemur fram hversu nærri eldstöðinni var lent í fyrri skiptin.

Verði flugmaðurinn sakfelldur gæti hann verið dæmdur til að greiða sekt á bilinu tíu þúsunda til hálfrar milljónar króna.