Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ákærðir fyrir grófa árás á Skagaströnd

Mynd með færslu
 Mynd:
Tveir karlmenn um tvítugt hafa verið ákærðir fyrir fólskulega líkamsárás á aldraðan mann á Skagaströnd í febrúar á þessu ári. Árásin tengist kynferðisbrotum en maðurinn - sem fyrir árásinni varð - var kærður fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn dóttursyni sínum.

Mennirnir tveir eru ákærðir fyrir húsbrot, eignaspjöll og stórfellda líkamsárás. Annar mannanna eru sagður hafa brotið rúðu á útihurð og tekið hana úr lás. Þeir veittust að manninum í eldhúsi, annar mannanna sló hann ítrekað með krepptum hnefa í andlit og höfuð en hinn sparkaði þrisvar sinnum með hné sínu í andlit hans. 

Maðurinn lá á gjörgæsludeild sjúkrahússins á Akureyri eftir árásina en mennirnir tveir sátu um tíma í gæsluvarðhaldi.

Í ákæru ríkissaksóknara kemur fram að maðurinn hafi hlotið skurð á vinstra eyra sem sauma þurfti saman, litla utanbastblæðingu vinstra megin á heila og lítilshátar innanbastsblæðingu hægra megin í heila. Nefbein brotnaði sem og augntóftarbein, kinnholsbein, vinstra kinnbein og gervitennur. Hann krefst þess að árásarmönnunum tveimur verði gert að greiða sér rúmar tvær milljónir.

Mennirnir eru einnig ákærð fyrir margvísleg brot, ýmist saman eða í sitthvoru lagi. Annar mannanna er til að mynda ákærður fyrir blygðunarsemisbrot en hann beraði kynfæri sín fyrir manni sem sat í bíl og þrýsti nöktum afturenda sínum að vinstri framrúðu.

Hinn maðurinn er ákærður fyrir að hafa slegið glerflösku í höfuð manns fyrir utan Kaffi Krók og fyrir að hafa hótað tveimur lögreglumönnum lífláti og dóttur annars þeirra líkamsmeiðingum.

Mennirnir tveir ásamt stúlku á svipuðu reki eru síðan ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í júní í fyrra. Þau veittust að manni við félagsheimilið Fellsborg með grófu ofbeldi.

Í ákærunni kemur fram að mennirnir tveir hafi báðir skallað manninn og annar þeirra sparkaði þrisvar sinnum í höfuð hans.  Maðurinn hlaut meðal annars nefbrot, glóðarauga á bæði augu og varð mögulega fyrir heyrnarskerðingu í vinstra eyra. Hann krefst þess að þeim þremur verði gert að greiða honum eina milljón.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Norðurlands vestra eftir helgi.

[email protected]