Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Airwaves-helgin gerð upp

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson - Iceland Airwaves photostream

Airwaves-helgin gerð upp

12.11.2018 - 18:40

Höfundar

Tuttugasta Iceland Airwaves-hátíðin fór fram í miðbæ Reykjavíkur um helgina. Fréttaritari Menningarvefs RÚV þræddi ógrynni tónleika.

Ég byrjaði föstudagskvöldið á því að sjá stelpubandið Girl Ray í Iðnó. Indírokkið þeirra er sækir stíft í tíunda áratuginn og krúttlegar twee-sveitir eins og Belle & Sebastian. En einn mann langaði mig sérstaklega að sjá, Julian Casablancas, fyrrum söngvara einnar bestu rokksveitar 21. aldarinnar, The Strokes. Hann fer fyrir sveitinni The Voidz og það kom mér á óvart að sú staðreynd hafi ekki verið nýtt betur til að auglýsa hátíðina. En eitthvað virtist það hafa spurst út því röðin inn í Gamla bíó náði fyrir hornið og langt niður á Hverfisgötu. Ég þekkti ekki mikið til hljómsveitarinnar fyrir, en tónlistin datt reglulega í progg-sturlun og stærðfræðimetal, tíu mínútna lög, arabíska skala með tíðum kaflaskiptingum, flóknum ryþmum og tilheyrandi hetjugítarsólóum, en annar gítaleikarinn leit út eins og yngri bróðir Frank Zappa. Þetta er venjulega ekki eitthvað sem ég set út í kaffið mitt en leikgleðin var smitandi og spilamennskan fyrsta flokks – stundum sneru gítarleikararnir meira að segja bökum saman í rödduðum sólóum.

Mynd með færslu
 Mynd: Alexandra Howard - Iceland Airwaves photostream
Julian Casablancas á sviðinu með The Voidz.

Hatari steig næst á svið í Gamla Bíói og leikritið þeirra er þaulæft og flutningurinn þrunginn tilfinningu. Þeir blanda fagurfræði fasismans og kvalalostans við groddalegt rafrokk og Matthías söngvari messar biksvarta tómhyggju yfir fjöldanum sem át úr lófanum á honum. Norska söngkonan Aurora lék í Flóa, nýjum sal sem er á ganginum í Hörpu, og er nokkuð vel heppnuð viðbót. Aurora leikur áferðarfallegt rökkurpopp, sem hefur verið mjög móðins í Skandinavíu undanfarinn áratug eða svo, og hljómsveitir eins og Bat For Lashes gerðu vinsælt. Röddin var titrandi og loftkennd og allt var vel gert en mér fannst þetta fullmikil afleiðsla og það var kraftleysi á sviðinu.  

Sykur bætti hins vegar upp fyrir það með Kárahnjúkakrafti á sviðinu á Húrra. Þau byrjuðu ekki fyrr en klukkan tvö, en það vottaði ekki fyrir þreytu, og hressilegt rafpoppið rann eins og hunang ofan í stappfullan Húrra.

Norskt rokk og bresk sál

Ég hóf laugardagskvöldið þar sem ég endaði föstudaginn, á Húrra, þar sem Eurovision-stirnið Daði Freyr var að koma sér fyrir. Vinsældir hans eru slíkar að Húrra er eiginlega of lítill staður, og ég hætti mér ekki í troðning svona snemma kvölds, heldur naut tónlistarinnar úr öruggri fjarlægð. Kött Grá Pje er loksins snúinn aftur úr sjálfskipaðri tónlistarútlegð og var í rokna stuði á Hressó. Næstsíðasta lag sem hann tók var nýtt og algjör slagari, og minnti mig á Hip Hop með Dead Prez.

Norska rokksveitin Pom Poko var ein óvæntasta ánægjan á hátíðinni í ár, spilaði diskóskotið rokk með oddhvössum riffum, fönkí bassagrúvum, og vænum skammti af danstakti. Söngkonan var með poppstjörnusjarma í tunnuvís og trommarinn einn sá besti á hátíðinni. Danska bandið Total Hip Replacement var skipað tíu mestmegnis skjannahvítum Skandinövum að spila reggí og fönk, mjög vel spilandi en fönkið var fullfaglegt fyrir minn smekk og jaðraði við að vera sterílt. Rapparinn Rejjie Snow kemur frá Írlandi og sækir í brunn neðanjarðar-rappsenunnar sem blómstraði í kringum síðustu aldamót, oft kennd við plötufyrirtækið Rawkus. Ég kann vel að meta tónlist Snow en engum var greiði gerður með því að láta hann spila í Listasafni Reykjavíkur. Það var tómlegt á sviðinu og lítil orka, sviðsframkoman flöt og náði engu flugi.

Mynd með færslu
 Mynd: Alexandra Howard - Iceland Airwaves photo stream
Dev Hynes lék við hvern sinn fingur í Hörpu.

Ég flúði þess vegna yfir í Hörpu þar sem Blood Orange, tónlistarverkefni bresku sálarhetjunnar Dev Hynes, var að koma sér fyrir. Hljómsveitin grúvaði vel saman og dúnmjúkt 80's-fönkið hans fór rólega af stað en leikar æstust þegar á leið. Undir lokin brast á með villtum gítarsólóum og tónlistin slagaði hátt upp í fjólubláa prinsinn, blessuð sé minning hans. Franski dúettinn Polo & Pan lokaði svo hátíðinni með sindrandi djúpglimmerdiskói og dansað var á hverjum einasta fermetra inni á Húrra.

Þessi fyrsta Airwaves-hátíð eftir að nýir aðilar tóku við rekstrinum fór vel fram. Skipulag var til fyrirmyndar og þrátt fyrir að erlendu flytjendurnir hafi verið lítt þekktir var flest sem ég sá mjög gott, og það sem stóð upp úr um helgina var Blood Orange, Pom Poko, The Voidz og Polo & Pan.

Tengdar fréttir

Airwaves

Meirihlutinn útlendingar á Airwaves í ár

Tónlist

Af fölskvalausum galsa og flötum Finnum

Tónlist

Snjókornapopp og geðrofsballöður stóðu upp úr

Tónlist

Beint á vínyl – Airwaves-hægvarp í Hljóðrita