Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Airbnb-þreyta gerir vart við sig

13.10.2017 - 18:52
Mynd: Unsplash / CC0
Fasteignasalar á höfuðborgarsvæðinu segja mun minna um það en áður að fólk kaupi litlar íbúðir gagngert til þess að leigja þær út á Airbnb en nokkuð um að þeir sem hafa staðið í útleigu séu að selja eignir. Eitthvað er farið að bera á útleiguþreytu hjá gestgjöfum. Sumir fela þjónustufyrirtækjum að sjá um reksturinn en nokkur slík hafa skotið upp kollinum upp á síðkastið. Litlar eignir miðsvæðis í Reykjavík hafa í ár hækkað mun minna en vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.

Þjónustufyrirtækin koma upp á yfirborðið

Sölvi Melax er formaður samtaka um skammtímaleigu á heimilum og framkvæmdastjóri eins þjónustufyrirtækjanna.

„Það eru margir búnir að vera í þessu í einhvern tíma, margir sem hafa gert þetta áður án þess að vera með formlegt fyrirtæki í kringum að út á við, bara verið með rekstur, en þetta er hægt og rólega að koma upp á yfirborðið.“ 

Sölvi var búin að sinna útleigu fyrir aðra í þrjú ár en stofnaði formlegt fyrirtæki, Heimaleigu, í byrjun árs. Fyrirtækið sér um útleigu á 40 eignum. 

„Það segir sig alveg sjálft, eins og var talað um í skýrslu Landsbankans, að það séu jafnvel 40-50% ferðamanna sem koma og gista í íbúðum, að þá verður ákveðinn rekstur í kringum svoleiðis.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: AirBnb - Skjáskot

„Þú ert alltaf á vakt, þetta er meiri vinna en fólk heldur“

Hann segir að útleigan kalli á ákveðna sérþekkingu á markaðnum, gæðakröfur hafi aukist og það sé ekki endilega auðvelt fyrir einstaklinga að standa í þessu. „Margir sem hafa verið í þessu í langan tíma eru orðnir þreyttir, þú ert alltaf á vakt, þetta er meiri vinna en fólk heldur og svo er þetta bara orðin svolítil kúnst. Að vita hvenær eru stórar helgar, hvernig á að verðleggja sumarið, hvernig á að verðleggja veturinn og bara fagmennskan, hvað er það sem skiptir máli, hvað á að leggja áherslu á og setja peninga í, hvað skiptir minna máli. Þetta er erfitt fyrir einstakling með kannski eina íbúð að vera með þetta sem aukabúgrein og leggja sig allan fram, þjónustufyrirtækin þekkja þetta frá A til Ö.“ 

Viðgerðir, þrif og samskipti

Sölvi segir marga leita til fyrirtækisins og bera undir það fasteignir í sinni eigu, hvort þær henti til útleigu. Flestir viðskiptavina þeirra fela þeim eina eign til að sjá um. Fyrirtækin Leigulausnir, Dekura og Green key bjóða upp á svipaða þjónustu. Guðmundur Árni Ólafsson, framkvæmdastjóri Green key, segir eftispurnina nokkuð árstíðabundna. Í sumar sá fyrirtækið um útleigu um 40 eigna, viðskiptavinirnir voru einkum Íslendingar sem fólu þeim að leigja út eignir síðan á meðan þeir fóru í sumarfrí en líka erlendir fjárfestar sem eiga hér eignir og minni gistiheimili. Fyrirtækið sinnir viðhaldi og viðgerðum á húsnæðinu, samskiptum við gesti og annast þrif, svo eitthvað sé nefnt. 

Verða meira varir við sölu en kaup

Sölvi nefnir að margir séu orðnir þreyttir á því að standa sjálfir í því að leigja út eignina sína á Airbnb. Fasteignasalar verða líka varir við þessa þreytu, bara með öðrum hætti. Þeir segja minna um það nú, en fyrir ári eða tveimur, að fólk sækist eftir því að kaupa litlar íbúðir miðsvæðis gagngert til þess að leigja þær út á Airbnb. Fólk sé miklu frekar að losa sig við slíkar eignir, það sé þó ekki hætt að tala um neina holskeflu í því samhengi. 

Fólk búið að ávaxta fé sitt vel

Mynd með færslu
 Mynd:
Miðborg Reykjavíkur.

Ástæðurnar sem fasteignasalarnir nefna eru meðal annars fyrrnefnd Airbnb-þreyta, fólki finnist tekjurnar ekki vega nógu mikið upp á móti allri vinnunni sem það þurfi að leggja á sig. Þeir nefna líka hátt fasteignaverð, fólk hafi ávaxtað sitt fé vel og vilji leysa það út, nota peningana í annað. Þá nefna þeir lagabreytinguna sem tók gildi um áramótin og setur heimagistingu auknar skorður. Ekki má leigja út í meira en 90 daga, annars telst útleigan rekstrarleyfisskyld starfsemi og skipulagsyfirvöld eru spör á að veita leyfi fyrir henni í íbúðahverfum. Þá sé eftirlit meira en áður. 

Minni gróðavon 

Sigþór Bragason hjá fasteignasölunni Gimli segir fólk aðallega vera að selja Airbnb íbúðir. Það sé einn og einn sem kaupi en það séu þá íbúðir þar sem hafi verið Airbnb áður. Ásta María Benónýsdóttir, hjá Kjöreign, segist hafa farið að finna fyrir þessu í sumar, þá hafi  8-10 fyrrum Aribnb íbúðir komið inn á borð til þeirra. Hún segir hræringarnar litlar, þetta komi ekki til með að hafa áhrif á markaðinn. Annar fasteignasali sem Spegillinn ræddi við, tók undir þetta, sagði aðallega verið að losa um eignir í miðbæ Reykjavíkur en þetta væru ekki það stórar hræringar að þær hristu eitthvað upp í markaðnum. Hann tengir þetta einkum lagabreytingunni sem tók gildi um áramótin, það sé minni gróðavon í þessu en áður, og föst leiga orðin mjög há, henni fylgi minni vinna og meira öryggi. 

Eignirnar þurfi sérstöðu

Einn þeirra sem rætt var við sagðist ekki hafa orðið var við hræringar á þessu sviði, ekkert sem heitið geti. Sigurður Rúnar Samúelsson, hjá Landmarki, var á hinum endanum, segir að síðastliðna mánuði hafi framboð á litlum eignum í miðborginni aukist mikið. Í mars hafi verið um 20 tveggja herbergja íbúðir til sölu í 101 á fasteignavef Vísis. Í dag séu þær í kringum 70 og hátt í 200 ef hverfi 105 og 107 eru talin með. Þetta telur hann benda til þess að fólk sé að selja eignir sem hafi verið í útleigu á Airbnb. Hann nefnir hertari löggjöf og meira eftirlit, segir fólk hafa hagnast á þessu í nokkur ár og að það vilji selja núna þegar verðið sé sem hæst. Framboð á þriggja herbergja íbúðum hafi líka aukist. Þetta eigi eftir að hafa áhrif á markaðinn og útlit fyrir að það hægi á verðhækkunum í miðbænum. Eftirspurnin þar hafi minnkað og eignir séu lengur á sölu en áður, sérstaklega þær sem hafi litla sérstöðu, ungt fólk velji frekar að borga fyrir aukin gæði og fleiri fermetra í úthverfum en minni gæði og færri fermetra miðsvæðis.

Eldhúsáhöld krækt á vegg í eldhúsi yfir eldavél.
 Mynd: sanja gjenero - Freeimages

Hafa ekki haldið í við vísitöluna

Íbúðalánasjóður gat ekki upplýst Spegilinn um hvernig framboð á litlum íbúðum miðsvæðis hefur þróast upp á síðkastið, aðeins um fjölda kaupsamninga og meðalverð. Meðalfermetraverð 2-3 herbergja íbúða í póstnúmerum 101, 105 og 107 var 512.000 krónur í ágúst. Það hafði þá hækkað um 3% síðan í upphafi árs. Til samanburðar hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 11% á sama tímabili. Því hafa 2-3 herbergja íbúðir miðsvæðis í Reykjavík hækkað hlutfallslega minna í verði en aðrar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu undanfarna mánuði.

Fjöldi kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu hefur dalað nokkuð undanfarna mánuði og var skrifað undir 482 slíka í september, svipaðan fjölda og í upphafi árs 2016. Litlar íbúðir skera sig ekki úr, viðskipti með þær hafa dalað svipað mikið og viðskipti á höfuðborgarsvæðinu í heild. 

„Gæti hjálpað til við að leysa húsnæðisvanda almennings“

Ólafur Heiðar Helgasson hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði segir erfitt að fullyrða nákvæmlega hvaða áhrif Airbnb-útleiga hefur á fasteignamarkaðinn, enda tölur nokkuð á reiki. Hins vegar sé ljóst að kaup á íbúðum í þeim tilgangi að leigja þær til ferðamanna í gegnum síður á borð við Airbnb geti ýtt undir verð íbúða á vissum svæðum. Ef íbúðir sem hafa verið nýttar í þessum tilgangi skila sér aftur inn á hinn hefðbundna íbúða- eða leigumarkað geti það hjálpað til við að leysa úr húsnæðisvanda almennings. Mikilvægast sé þó að byggja upp stöðugan húsnæðismarkað þar sem almenningur hafi val um að búa í eigin íbúð eða í öruggu leiguhúsnæði til langs tíma á hóflegu verði.