Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Áhyggjur af mönnun á Grímsstöðum

18.05.2012 - 18:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður Framsýnar er efins um að það takist að manna 400 manna vinnustað á Grímsstöðum á Fjöllum með innlendu fagfólki. Til þess að það geti orðið þurfi að hækka laun og auka starfsmenntun innan ferðaþjónustunnar.

Framsýn hefur óskað eftir fundi með Huang Nubo til þess að ræða starfsmannamál á væntanlegu hóteli á Grímsstöðum á Fjöllum en reiknað er með því að þar muni 400 manns starfa.  Aðalsteinn Baldursson er formaður Framsýnar.  Hann saknar þess að þeir sem koma að verkefninu sjái ekki ástæðu til þess að funda með félaginu og kynna hvað er í gangi því þetta sé á félagssvæði Framsýnar og reikna megi með því að 80 prósent af þeim sem vinna þarna verða í félaginu. 

Aðalsteinn hefur vissar áhyggjur af því hvernig takast muni að manna vinnustaðinn því það sé skortur á fagfólki í ferðaþjónustu á Íslandi og launin séu almennt ekki merkileg. Að hans mati komi ekki til greina að flytja inn fólk fyrir þessi störf á meðan yfir 11 þúsund manns séu atvinnulaus á Íslandi. Frekar þurfi að efla starfsmenntun og hækka laun til þess að gera störfin eftirsóknarverð. 

„Ég held að þar yrði að spýta verulega inn í varðandi kjör starfsmanna til þess að þeir fáist til þess að vinna þessi störf. Það er alveg ljóst að við munum ekki taka erlendu vinnuafli sem á að flytja til landsins í þessari eða annari ferðaþjónustu," segir hann. „Við munum ekki líða það og munum koma því skýrt á framfæri."