Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Áhyggjur af börnum innflytjenda

01.08.2014 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Félagsmálaráðherra hefur áhyggjur af annarri og þriðju kynslóð innflytjenda á Íslandi. Hætt er við því að þeir einangrist. Einnig vekur staða innflytjenda á húsnæðismarkaði ugg.

Í fréttum RÚV hefur verið fjallað um mikla fordóma í garð innflytjenda á Íslandi. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra segir að í bígerð sé frumvarp að lögum sem bannar mismunun á grundvelli kynþáttar en Ísland er eina Evrópuríkið þar sem ekki er skýrt kveðið um slíkt bann í lögum. „Við höfum miklar áhyggjur af stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaði og því sem snýr að almennri aðlögun að íslensku samfélagi. Tungumálakunnátta skiptir mjög miklu máli til þess að geta tryggt að börn innflytjenda geti lokið grunnskólanámi, farið í framhaldsskóla, valið síðan að fara í iðnnám eða háskólanám.“

Eygló segir að dæmi séu um að innflytjendum séu síður leigðar út íbúðir á leigumarkaði, oft vegna þess að þeir tala ekki lýtalausa íslensku, bera eðli málsins samkvæmt alþjóðleg nöfn og hafa ekki eins miklar félagslegar tengingar og innfæddir. Eygló segir að sérstaklega þurfi að huga að annarri og þriðju kynslóðum innflytjenda hér á landi, sem hún hefur áhyggjur af. En hætt er við því að þeir einangrist ekki. Eygló segir að stjórnvöld láti málefnið sig áfram varða, sem lög um málefni innflytjenda sem samþykkt voru 2012 og leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um móttöku innflytjenda frá því í vor sýna.