Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Áhuginn er eflaust undir niðri”

Mynd með færslu
 Mynd: www.wikipedia.is
Ljósleiðaravæðing er forgangsmál hjá íbúum í Kjósarhreppi og að ljúka lagningu hans. Þetta segir Guðmundur H. Davíðsson, oddviti í sveitarfélaginu. Kosning verður óbundin í komandi sveitarstjórnarkosningum eins og verið hefur. Guðmundur ætlar að gefa kost á sér áfram sem sveitarstjóri en hann greinir ekki mikinn áhuga hjá íbúum vegna komandi kosninga.

Á síðustu tveimur árum var hitaveita lögð í Kjósarhreppi og segir Guðmundur einnig mikilvægt að fylgja því verki eftir og koma hitaveitunni í fulla notkun. Þá sé alltaf lögð áhersla á umbætur á vegakerfi og í samgöngu- og fjarskiptamálum í sveitarfélaginu. Að sögn Guðmundar standa fjármál sveitarfélagsins vel, þrátt fyrir miklar framkvæmdir og mikilvægt sé að halda vel utan um þau mál áfram. 

Guðmundur greinir ekki áberandi áhuga meðal íbúa sveitarfélagsins vegna komandi kosninga. „Áhuginn er eflaust undir niðri," bætir hann þó við. Enginn hefur sérstaklega tekið það fram að hann sækist eftir kjöri. 

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður