Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Áhugasamir um tengsl Jóns Ásgeirs við Panama

24.04.2016 - 20:16
Mynd með færslu
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleigandi og forstjóri Baugs. Mynd: RÚV
DR, Daily Mail og Telegraph eru meðal þeirra erlendu fjölmiðla sem hafa sýnt tengslum kaupsýslumannsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við Panama-skjölin áhuga. Danska ríkisútvarpið hefur reynt án árangurs að ná tali af íslenska kaupsýslumanninum vegna tengsla hans við Mossack Fonseca, lögfræðistofuna alræmdu í Panama.

DR segist hafa aðgang að skjölunum um tengsl Jóns Ásgeirs og Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu hans, við aflandsfélög í þekktum skattaskjólum. „Hægt er að lesa út úr skjölunum hvernig hinn gjaldþrota Landsbanki í Lúxemborg og lögfræðistofan Mossack Fonseca hafa aðstoðað hinn þekkta kaupsýslumann,“ skrifar DR - þau hjónin eigi félög í Panama, á Bresku jómfrúreyjum og Cayman-eyju sem enn séu í fullri starfsemi. 

DR segir þessar uppljóstranir sérstaklega áhugaverðar þar sem Jón Ásgeir hafi ítrekað sagt að hann ætti ekki mikla peninga eftir bankahrunið. Ríkisútvarpið danska  rekur síðan viðskiptaferil Jóns Ásgeirs í Danmörku, hvernig hann keypti hverja eignina af fætur annarri þar en missti í kjölfar bankahrunsins 2008.

Breska blaðið Telegraph gerir sér einnig mat úr þessum uppljóstrunum sem birtust fyrst í Kjarnanum og Stundinni í síðustu viku í samvinnu við Reykjavik Media.  „Víkingurinn snýr aftur á High Street,“ segir í fyrirsögn á Telegraph - fjölskylda Jóns Ásgeirs hafi aðstoðað íþróttavörukeðjuna Sports Directs við að koma upp útibúi á Íslandi.

Mail on Sunday gerir sér einnig mat úr tengslum Jóns Ásgeirs við Panama-skjölin og hvernig þau varpa ljósi á viðskipti hans við Sports Direct sem er að mestu leyti í eigu hins umdeilda Mike Ashley, oftast kenndur við knattspyrnuliðið Newcastle.  

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV