Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Áhugamannafélag um geitur

28.04.2011 - 21:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Stofnað hefur verið áhugamannafélag til bjargar stærsta geitabúi landsins sem rambar á barmi gjaldþrots. Markmiðið er að tryggja að framtíð íslenska geitastofnsins en í honum eru ekki nema nema 600 dýr.

Á Háafelli í Hvítársíðu í Borgarfirði eru 150 fullorðnar geitur, sem er um fjórðungur íslenska geitastofnsins. Hið íslenska geitfjársetur hefur það að meðal annars að markmiði að útvega fjármagn til að bjarga búrekstrinum á Háafelli. Einnig ætlar setrið að koma að endurbótum og frekari uppbyggingu á búinu, meðal annars að koma upp aðstöðu til ostavinnslu úr geitamjólk og mótttöku fyrir ferðamenn. Stofnfélagar í Geitfjársetrinu eru um 30. Bragi Skaftason, formaður, segir að íslenski geitastofninn sé í útrýmingarhættu og þar sem opinberir aðilar hafi ekki staðið sig í að vernda hann þurfi almenningur að bregðast við. Geitabóndinn á Háafelli segir það afar ánægjulegt að fólk sé tilbúið að leggja málstaðnum lið.


„Það er náttúrulega bara yndisleg tilfinning. Þetta er fjölbreyttur hópur fólks og það er gaman að sjá að það eru fleiri svona skrýtnir eins og ég að heillast af geitinni og vilja leggja virkilega vinnu í þetta, og sitt af mörkum,“ segir Jóhanna Þorvaldsdóttir, geitabóndi á Háfelli í Hvítársíðu.


Aðspurð að því hvort framtíð íslensku geitarinnar sé tryggð með stofnun þessa seturs svarar Jóhanna að hún voni það, framtakið hafi fengið frábærar viðtökur. Fleiri og fleiri prófi líka geitaafurðir, þannig að nægur sé markaðurinn. Hins vegar sé ekki aðstaða til að anna eftirspurninni.