Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Áhrifavaldar biðja endalaust um fríar ferðir

10.04.2019 - 07:00
Forsíðumynd í grein bm um áhrifavalda og ferðaþjónustu
 Mynd: ruv
„Það var mjög mikil ásókn í þetta fyrir nokkrum árum; áhrifavaldar á samfélagsmiðlum sem vildu fá fríar ferðir gegn umfjöllun,“ segir Rannveig Grétarsdóttir, stjórnarformaður Eldingar hvalaskoðunar. Hún og aðrir stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi sem fréttastofa RÚV hefur rætt við, segja að stöðugt berist fyrirspurnir frá fólki sem bjóði upp á samstarf af þessu tagi. Ásóknin í þetta virðist hafa náð ákveðnu hámarki fyrir einu til tveimur árum, en hefur minnkað síðan þá.

„Sem áfangastaður var Ísland mjög umtalað fyrir nokkrum árum, en ég held að nýjabrumið sé farið af okkur, Ísland er komið miklu meira á kortið en áður,“ segir Styrmir Þór Bragason, hjá Arctic Adventures. „Við fáum samt endalausar beiðnir um svona samstarf; mjög mikið frá fólki sem er - eða telur sig vera - áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Þau vilja fá fríar ferðir hjá okkur gegn því að birta myndir, t.d. á Instagram, eða fjalla um ferðirnar á sínum vefsíðum. Fyrir svona einu og hálfu ári leið varla sá dagur að við fengum ekki svona fyrirspurnir, en það er orðið minna núna,“ segir Styrmir. 

Ný tegund af auglýsingamennsku

Auknar vinsældir samfélagsmiðla hafa leitt af sér nýja tegund af auglýsingamennsku, sem felst einmitt í þessu; fólk sem hefur komið sér upp stórum hópi fylgjenda, t.d. á Instagram, Youtube eða með öðrum hætti, býður upp á samstarf við hótel eða önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu; að fjalla um fyrirtækin á jákvæðan hátt gegn því að fá ókeypis gistingu eða aðra þjónustu. Þetta virðist á stundum hafa gengið út í öfgar, eins og fjallað er um í nýlegri grein í New York Times. Þar er til að mynda sagt frá eiganda veitinga- og gististaðar á lítilli eyju á Filippseyjum, sem fékk nóg af fyrirspurnum af þessu tagi. 

Færslan fór á flug á samfélagsmiðlum og vakti upp mikil viðbrögð; eigandanum, Gianluca Casaccia, var ýmist hrósað í hástert, eða hann var gagnrýndur fyrir yfirlæti. Í grein New York Times segir Casaccia að hann sé hreint ekki á móti áhrifavöldum, og hafi vissulega unnið með slíkum (hann miðar við að viðkomandi sé með minnst hálfa milljón fylgjenda) - en hafi verið orðinn þreyttur á fólki sem væri að reyna að fá ókeypis gistingu. 

Alltaf sama tuggan 

„Við fáum mjög mikið af svona fyrirspurnum, oft með mjög skömmum fyrirvara,“ segir Ásmundur Sævarsson hjá Íslandshótelum. „Þetta er í raun alltaf sama tuggan; fólk vill fá eitthvað frítt, eða góðan afslátt, í staðinn fyrir myndefni. Við höfum hvorki mannskap eða áhuga á að skoða hvert og eitt bréf af þessu tagi, en stundum sjáum við einhver tækifæri í þessu, til dæmis þegar við fórum í samstarf við ítalskan píanóleikara sem er með mikla spilun á Youtube. Hann endaði á því að taka upp tónlistarmyndband á bryggjunni við hótelið okkar á Fáskrúðsfirði núna í byrjun mars, og það verður gaman að að sjá afraksturinn af því - þannig að það leynast stundum gullmolar í þessu flóði skilaboða af þessu tagi.“

Mynd fyrir grein BM um kvabb frá áhrifavöldum til fyrirtækja í ferðaþjónustu
 Mynd: ruv
Dæmi um fyrirspurn sem barst íslensku fyrirtæki í ferðaþjónustu

Velja áhrifavalda og vinna markvisst með þeim

„Við fáum gríðarlega mikið af fyrirspurnum af þessu tagi og það fer talsverð vinna í að sjá út hverjir það eru sem við viljum vinna með,“ segir Daði Guðjónsson hjá Íslandsstofu, sem vinnur með fyrirtækjum að markaðs- og kynningarmálum fyrir Ísland sem áfangastað. „Sumir eru að þessu í mikilli alvöru; hafa mikinn fjölda fylgjenda og samstarf við þá hefur skilað árangri. Aðrir eru kannski á réttri leið en eiga eftir að sanna sig - og aðrir eru einfaldlega það sem við köllum „plat-áhrifavaldar“; til dæmis með keyptan hóp fylgjenda á samfélagsmiðlum.

Þeir sem við ákveðum að vinna með verða líka að falla að okkar áherslum og stefnu; við metum til dæmis hvernig persónuleiki þeirra kemur fram á samfélagsmiðlum, hvort þeir stundi ábyrga ferðamennsku og slíkt - og hvort þeir eru tilbúnir að gera sem við viljum gera, til dæmis að leggja áherslu á landshluta sem við teljum þurfa meiri athygli til að dreifa ferðafólki betur um landið á mismunandi tímum árs,“ segir Daði.

„Sem dæmi má nefna að í fyrra og hitteðfyrra unnum við með áhrifavöldum sem náðu til meira en 9 milljón manns á samfélagsmiðlum. Þessir aðilar fóru í landshluta sem meginstraumur ferðamanna hingað sækir síður og þetta skilaði sér í umfjöllun sem vakti um tvær og hálfa milljón viðbragða á samfélagsmiðlum.“

Náði ákveðnu hámarki í fyrra

Þrátt fyrir að hafna langflestum fyrirspurnum af þessu tagi, þá eru mörg dæmi þess að ferðaþjónustufyrirtæki hafi unnið með áhrifavöldum; í mörgum tilfellum með milligöngu Íslandsstofu. „Við höfum farið í samstarf - ekki í miklum mæli - en með nöfnum sem við þekkjum af samfélagmiðlum,“ segir Páll Sigurjónsson, framkvæmdastjóri KEA hótela. „Við fáum talsvert af svona fyrirspurnum um fría gistingu gegn umfjöllun; þetta náði ákveðnu hámarki í fyrra, og þegar við höfum séð ákveðin tækifæri, þá höfum við gengið til samstarfs.“ 

Dæmi um svona auglýsingar er víða að finna á samfélagsmiðlum; hér að neðan sést færsla frá konu sem kallar sig @theblonde traveller og af myndum hennar frá Íslandi virðist eins og hún hafi meðal annars samið um jöklaferð og afnot af litlum húsbíl. 

 

@theblonde traveller hefur greinilega einnig heimsótt Bláa Lónið; einn vinsælasta áfangastað erlendra ferðamanna sem hingað koma - en sennilega á eigin vegum. Á þann máta virðist Bláa lónið hafa nokkra sérstöðu - staðurinn virðist vera nógu þekktur til að þurfa ekki á auglýsingum af þessu tagi að halda. 

Áhrifavaldar auglýsa sjálfir 

„Það er alltaf töluvert um að áhrifavaldar hafi samband við okkur, og það alls staðar að úr heiminum “ segir Helga Arnardóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa Lóninu. „Við höfum almennt ekki verið að vinna markvisst með áhrifavöldum.  Hins vegar hafa margir komið á eigin vegum, bæði í lónið og á hótelin og í framhaldinu tjáð upplifun sína á samfélagsmiðlum. Með tilkomu Retreat hótelsins, hefur ásýnd og eftirspurn breyst þar sem við erum að ná til nýs markhóps, sem kemur á eigin forsendum, sem eru áhrifavaldar út af fyrir sig. Þetta eru oft á tíðum þekktir og efnaðir einstaklingar sem eru með marga fylgjendur á sínum samfélagsmiðlum,“ segir Helga.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

#BlueLagoon #Iceland

A post shared by Floyd Mayweather (@floydmayweather) on

Hin hliðin á samfélagsmiðlum

„Við settum mjög strangar vinnureglur um samstarf fyrir nokkrum árum, enda var þetta orðið algjört rugl; það var mjög mikil ásókn af fólki sem vildi fá fríar ferðir gegn umfjöllun,“ segir Rannveig Grétarsdóttir hjá Eldingu. „Það sem er hins vegar verra, er þegar fólk reynir að fá endurgreitt eða vill fá afslátt með því að hóta slæmu umtali eða umfjöllun, til dæmis á Tripadvisor ferðavefnum. Það eru margir sem leika sér að þessu og vita hvað þeir eiga að segja til að fá endugreitt; til dæmis kvarta þeir yfir því að hafa ekki séð hval í ferðinni - jafnvel þó viðskiptavinir okkar viti ofur vel að það er ekki hægt að lofa því. Við höfum einfaldlega brugðist þannig við að við segjum fólki bara að skrifa það sem það lystir.