Áhrif kynjakvótalaganna lítil í fyrirtækjum

06.10.2018 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lög um kynjakvóta hafa ekki ekki leitt til þess að konur í æðstu stöðum fyrirtækja hafi fjölgað, segir prófessor í félagsfræði. Karlar eru í meirihluta rúmlega 80% framkvæmdastjórna í 250 stærstu fyrirtækjum landsins. 

Eftir hrun voru sett lög um kynjakvóta í stjórnun fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn þannig að lágmark hvors kyns væri 40%. Lögin tóku gildi hjá opinberum stofnunum vorið 2010 og haustið 2013 hjá hlutafélögum. 

„En það sem hefur ekki gerst og það sem var svona undirliggjandi í allri umræðunni, að löggjafinn og stjórnvöld vonuðust til að myndi gerast, það var að þetta hefði smitáhrif yfir í fyrirtæki, sem kannski heyrðu ekki beint undir kynjakvótalögin, þ.e.a.s. fyrirtæki þar sem starfa þá færri en 50 manns og yfir í framkvæmdastjórnir þ.e.a.s. í æðstu stjórnendastöður í fyrirtækinu,“ segir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Hún fjallaði um áhrif kynjakvóta í málstofu í morgun á ráðstefnunni „Hrunið, þið munið“ í Háskóla Íslands. Konum í hópi forstjóra eða framkvæmdastjóra hefur ekki fjölgað og konum sem eru stjórnarformenn hefur ekki fjölgað svo neinu nemi, segir Guðbjörg Linda. Í 250 stærstu fyrirtækjum landsina eru 10% forstjóra konur. Þá hafi minni fyrirtækin það er þau með 50 til 150 starfsmenn ekki náð að uppfylla 40% regluna. Hún segir engin teikn um að konum í stjórnendastöðum sé að fjölga: 

„Hins vegar þá er athyglisvert að skoða fyrirtæki sem að konur þó eru yfir að í þeim fyrirtækjum eru fleiri konur en í öðrum fyrirtækjum þá í þessum æðstu stjórnunarlögum.“

Það geti bent til þess að kvenstjórnandinn sé líklegri að fá konur í æðstu stjórnendastöður en ástæðan gæti líka verið sú að fyrirtækið sé öðru vísi, það er sinni starfsgrein þar sem konur hafa verið fjölmennari en karlar.  

„En staðreyndin er sú að 82% af 250 stærstu fyrirtækjum á Íslandi hafa framkvæmdastjórnir þar sem karlmenn eru í meirihluta. Þannig að það er nú svona landslagið hjá okkur í dag.“

Guðbjörg Linda birti tölur úr meistararitgerð Ómars Jóhannssonar frá því á þessu ári í fyrirlestri sínum. Fyrir utan að í 82% framkvæmdastjórnanna sé meirihlutinn karlar þá eru engar konur í 23,2% framkvæmdastjórnanna. Kynjahlutfallið er jafnt í 8,6% tilfella, fleiri konur eru í 9,4% framkvæmdastjórnanna og 2% þeirra eru engir karlar. 

Á vefsíðu HÍ "Hrunið, þið munið" er gagnabanki um hrunið m.a. annars yfirlit yfir fræðigreinar.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi