Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Áhöfnin var óttaslegin

30.10.2013 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Ellefu manna áhöfn flutningaskipsins Fernöndu slapp heil á húfi er eldur kom upp í skipinu laust eftir hádegi þegar það var statt um tuttugu kílómetra suður af Vestmannaeyjum. Aðstæður á vettvangi voru mjög erfiðar vegna vinds og sjólags. Komið var með áhöfnina til Reykjavíkur síðdegis.

Um hálftvö leytið í dag var óskað eftir aðstoð vegna elds í flutningaskipinu Fernanda. Eftir því sem næst verður komist var skipið á leið til Hafnarfjarðar að sækja mjöl. Skipverjar náðu ekki að slökkva eldinn sem kviknaði í vélarrúmi skipsins. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar á vettvang. Frá Vestmannaeyjum fóru hafnsögubáturinn Lóðsinn og björgunarbáturinn Þór. Áhöfn björgunarbátsins kom á vettvang nokkrum mínútum eftir þyrlu Landhelgisgsælunnar. Siglingin tók um einn og hálfan tíma í erfiðum aðstæðum, miklum vindi og haugasjó.

Komið var með áhöfnina til Reykjavíkur síðdegis. Annar stýrimaður skipsins segir að eldurinn hafi breiðst hratt út og að áhöfnin hafi verið óttaslegin. Margir úr áhöfninni voru sótsvartir eftir reykinn í skipinu en mennirnir eru flestir frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi og tala fæstir ensku. Sergei Astafyev, annar stýrimaður skipsins, segir að eldurinn hafi komið upp í vélarrúminu og breiðst hratt út. Hann segist ekki vita hvers vegna eldurinn kviknaði, en sagði það hugsanlega hafa verið út frá rafmagni. „Lítill neisti varð að stóru báli,“ segir Sergei. Mennirnir fóru upp á þilfar skipsins og biðu þar eftir þyrlunni. Sergei segir að veðrið hafi verið vont og að mennirnir hafi verið óttaslegnir á meðan þeir biðu eftir hjálp. „Við vorum mjög hræddir og biðum eftir hjálp,“ segir Sergei.

„Þegar við nálguðumst skipið sáum við mikinn reyk og þegar við komum í hangflug yfir skipið stóðu eldstungur upp úr vélarrúmi og brú og töluverður reykur frá þeim svæðum,“ segir Sigurður Heiðar Wiium, þyrluflugmaður hjá Landhelgisgæslunni. „Eldurinn náði upp í brúna þannig að þeir höfðu misst stjórnina á skipinu og það rak stjórnlaust.“

Búið er að slökkva allan sýnilegan eld í skipinu. Varðskipið Þór er væntanlegt á staðinn um ellefu leytið í kvöld og þá verður ákveðið hvað gert verður við skipið.