Áhættumat Hafró hlýtur að vega þungt

15.07.2017 - 19:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjávarútvegsráðherra telur að áhættumat Hafrannsóknastofnunar, þar sem lagst er gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði, hljóti að vega þungt í vinnu starfshóps um fiskeldismál. Áhættumatið kemur illa við bæði fiskeldismenn og laxveiðimenn.

Sjávarútvegsráðherra veitti starfshópi sínum um stefnumótun í fiskeldi nýverið skilafrest sérstaklega til að bíða eftir áhættumati Hafrannsóknastofnunar.

Matið var svo birt í gær og þar segir að Vestfirðir og Austfirðir þoli sjöfalt meira eldi á frjóum laxi en nú er, en þó er lagst gegn laxeldi í Stöðvarfirði sem og Ísafjarðardjúpi, þar sem þrjú fiskeldisfyrirtæki áforma stórfellt eldi. Ástæðan er sú að eldi þar er talið skapa of mikla hættu á erfðablöndun við íslenska laxastofna.

Mikilvægt að hlusta á vísindamenn og rannsakendur

Sjávarútvegsráðherra segir matið hafa mikið vægi.

„Ég mundi telja að vægið væri þungt – að það væri mikið – því að ellegar hefði ég nú ekki verið að veita þennan frest sem var farið fram á vegna áhættumatsins. En þetta er náttúrulega einn partur af stærri mynd sem starfshópurinn hefur væntanlega fyrir framan sig,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra og bætir við að miklu máli skipti að finna jafnvægi á milli nýtingar og náttúru. 

Getur ráðherra gengið gegn svona tiltölulega eindreginni niðurstöðu Hafrannsóknarstofnunar?
„Við skulum sjá hvað setur, ég ætla að veita starfshópnum þetta svigrúm, en ef þú hefur fylgst með því sem ég hef sagt almennt um fiskveiðistjórnunarkerfið þá tel ég mjög mikilvægt að við lítum til okkar helstu vísindamanna og rannsóknarstofnana þegar kemur að uppbyggingu hvort sem er í sjávarútvegi, fiskeldi eða öðru.

35 milljónir frjórra laxa syndandi í kringum Ísland

Kristján Davíðsson, framkvæmdastjóri Landssambands Fiskeldisstöðva, sagðist í hádegisfréttum RÚV líta á matið sem innlegg í umræðuna en alls ekki endanlega niðurstöðu – ef farið yrði eftir því yrði meiri hagsmunum fórnað fyrir minni og milljarðafjárfestingu hent út um gluggann. Hann sagði að það yrði vonandi seint þannig að hver einasti villilax á landinu nyti vafans umfram byggðir á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Laxveiðimenn eru hins vegar ekki himinlifandi heldur og telja matið heimila allt of mikið eldi. „71 þúsund tonn þýðir að það eru 35 milljónir frjórra laxa syndandi í kringum Ísland á hverjum degi sem drottinn gefur og okkur finnst það mjög ríflegt,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga.

Jón Helgi fagnar hins vegar niðurstöðunni um Ísafjarðardjúp og Stöðvarfjörð og segir gríðarlega mikilvægt að hún verði virt. „Stjórnvöld verða að standa í lappirnar í þessu máli.“

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi