Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Áhættufjárfestingar lífeyrissjóðanna

23.02.2014 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Lífeyrissjóðirnir hafa ekki svarað gagnrýni um að fjárfestingar þeirra fyrir hrun hafi verið áhættusamar. Þetta segir forstöðumaður rannsókna- og spádeildar hjá Seðlabankanum. Lítil umræða sé um hvort sjóðirnir eigi að halda uppteknum hætti þegar gjaldeyrishöftin verða afnumin.

Lífeyrissjóðirnir töpuðu háum fjárhæðum í hruninu, bæði á framvirkum gjaldmiðlaskiptasamningum og vegna falls bankanna sem þeir höfðu samið við. Sjóðirnir gerðu samningana til að verja erlendar fjárfestingar sínar fyrir sveiflum á gengi krónunnar. Þessar skammtíma gjaldmiðlavarnir lögðust af í hruninu, og eru ekki stundaðar nú vegna gjaldeyrishaftanna.

Ásgeir Daníelsson, forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar hagfræði- og peningasviðs Seðlabankans segir það sérkennilegt að engin umræða sé um það hvort lífeyrissjóðirnir eigi að taka upp þessa gömlu siði þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt. Erlendar eignir þeirra námu í október rúmum 600 milljörðum króna, eða þriðjungi af vergri landsframleiðslu síðasta árs. „Það sem að, sem er að vísu ekki mikið, ég hef séð forystumenn lífeyrissjóðanna tjá sig um þessi mál finnst mér benda til þess að þeir telji sig hafa haft rétta stefnu fyrir fall bankanna og að þeir muni taka þá stefnu upp aftur um leið og færi gefst.“

Ásgeir segir fjárfestingar lífeyrissjóðanna fyrir hrun hafa einkennst af áhættusækni fremur en áhættuvörn. „Það er alla vegana finnst mér ástæða til að ætla að ýmsar af þeim skoðunum sem menn virðast hafa haft á þessum málum fyrir fall bankanna séu ekki réttar. Það bendir margt til þess að gengisvarnir þeirra hafi miðast meira við það að hagnast á viðskiptunum, það er að þetta hafi verið svona áhættufjárfesting frekar en áhættuvörn.“

Rannsóknarnefnd Alþingis sagði í skýrslu sinni að þessir viðskiptahættir bentu til þess að sjóðirnir, sem ættu að fjárfesta til langs tíma, hefðu verið að vonast eftir skjótfengnum ágóða á gjaldeyrismarkaði. Nefnd sem ríkissáttasemjari skipaði að beiðni landssambands lífeyrissjóða sagði það hrapalleg mistök að auka í gjaldmiðlavarnirnar þegar leið á árið 2008. Ásgeir segir sjóðina ekki hafa svarað þessari gagnrýni. Hann telur þó ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því að lífeyrissjóðirnir séu of áhættusæknir. „Nei, ekkert endilega. En ég hefði gjarnan viljað sjá þá gera grein fyrir hagkvæmni þessara erlendu fjárfestinga, bæði með tilliti til áhættudreifingar og ávöxtunar, og það er því miður ekki fyrir hendi,“ segir Ásgeir.