Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Áhætta að flýta ekki göngum

10.09.2014 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Bændur á Jökuldal yrðu fimm eða sex daga að ljúka göngum hjálparlaust ef kæmi til öskugoss úr Dyngjujökli. Erfitt er að flýta göngum því bændur hafa ekki pláss fyrir allt féð og þá þyrfti að endurskipuleggja slátrun.

Þyrftu að koma fé beint í sláturhús

Bændur á Jökuldal eiga enn um sex þúsund fjár á svæði sem gæti farið undir ösku frá Dyngjujökli. Þeir ákváðu reyndar að flýta smölun í Brúardölum á því svæði sem næst er gosstöðvunum. Benedikt Arnórsson, bóndi í Hofteigi og fjallskilastjóri, áætlar að bændur eigi um 12 þúsund fjár og að um helmingur sé þegar kominn heim á tún eða í sláturhús. Ekki sé hlaupið að því að flýta göngum frekar enda geti bændur ekki komið fé í slátrun nema á ákveðnum tímum. „Menn þurfa að losna við lömb ef að menn flýta göngum mikið. Menn hafa bara ekki aðstöðu til þess og ekki beit til þess að hafa þetta allt heima á túnum eða hafa það ekki allir allavega,“ segir Benedikt.

Stór smölun um helgina

Hann býst við að héðan í frá yrði fimm eða sex daga verk að ljúka fyrstu göngum. „Ef menn telja stöðuna hættulega þá myndi verða leitað eftir mannskapi og það væri hægt að leysa þetta á styttri tíma ef menn myndu sækja mannskap út fyrir svæðið,“ Segir Benedikt.Um næstu helgi verða heimalönd ofan Gilsár smöluð. Að því loknu er göngum á mesta hættusvæðinu lokið. Benedikt telur að þá eigi þó enn eftir að smala um fimmtunginum af fjárstofni Jökuldæla sem gengur á heimalöndum á útdalnum, fjær gosstöðvunum. Samkvæmt áætlun verður smölun þar ekki lokið fyrr en 20. september.

Áhætta að bíða

Benedikt viðurkennir að áhætta sé tekin með því að flýta ekki göngum í heimalöndum en til þess þyrfti að endurskipuleggja slátrun. „Við tökum alltaf áhættu allir sem í þessu eru. Hún er kannski meiri núna en oft er en við reynum að sitja rólegir yfir þessu og reynum að taka stöðuna og treystum á það að við höfum einhvern fyrirvara. Menn eru að treysta á það ennþá,“ segir Benedikt.

Fljótsdælingar eiga líka fé á fjalli

Þorvarður Ingimarsson á Eyrarlandi er fjallskilastjóri í Fljótsdal. Hann segir að bændur í dalnum séu að smala heimalönd sín og senda í fyrstu slátrun. Fyrsta lögganga sé næsta þriðjudag. Menn séu í viðbragðsstöðu en haldi áætlun enn sem komið er. Réttað verður í Melarétt í Fljótsdal 20. september. Hann segir að menn stökkvi af stað fari eitthvað að gerast.

Dýralæknir hefur orðað neyðarslátrun

Héraðsdýralæknir Austurlandsumdæmis hefur þegar beðið sláturleyfishafa að vera undir það búnir að hefja neyðarslátrun ef til öskusgoss kæmi. Í bréfi dýralæknis til allra sveitarfélaga á Austurlandi sem sent var 22. ágúst eru þau beðin að beina því til fjallskilastjóra að vera vakandi fyrir þeim möguleika að gosi gæti á hverri stundu og íhuga vel að ná því fé sem hefst við lengst inni í landi. Óhagstæð vindátt í mögulegu öskufalli gæti orði til þess að setja strik í allar fyrri áætlanir. Samkvæmt veðurspá verður suðvestanátt ríkjandi út vikuna sem myndi beina ösku yfir Austurland.