Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ágreiningur um skilning

26.06.2012 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Rætt var um frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum og ákvæði um kirkjuna í tillögum stjórnlagaráðs á Prestastefnu í morgun. Þetta gæti verið fyrsta skrefið að aðskilnaði ríkis og kirkju, að mati Hjalta Hugasonar prófessors.

Hjalti Hugason, prófessor við Háskóla Íslands, fór yfir tillögur stjórnlagaráðs sem snúa að þjóðkirkjunni. Hann benti á að kaflinn um þjóðkirkjuna falli niður og fari inn í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Nái tillögurnar fram að ganga verði trúfrelsi númer eitt og staða þjóðkirkjunnar númer tvö öfugt við það sem er í dag. Staða þjóðkirkjunnar verði ákvörðuð með lögum, ekki stjórnarskrá.

 

Þegar fyrir hendi

Séra Gunnlaugur Stefánsson var ósammála skilningi Hjalta og framsetningu. Hann álítur til dæmis að aðskilnaður ríkis og kirkju sé þegar fyrir hendi. Hjalti Hugason telur hinsvegar að svo sé ekki, hinsvegar geti þessi breyting verið skref í átt að aðskilnaði. Hann segir að aðskilnaður sé flókið mál sem taki langan tíma. 

„Það gerist ekki í einni svipan með einni ákvörðun," sagði Hjalti. 

Séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup ræddi lagafrumvarp um þjóðkirkjuna þar sem kirkjuþing fær aukið vægi og miklu fleiri komi að ákvarðanatöku í kirkjunni. Þetta segir hann að komi fram líka vegna þess að kirkjan sé í fjárþröng.