Agnes nýr biskup yfir Íslandi

25.04.2012 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Agnes M. Sigurðardóttir verður nýr biskup yfir Íslandi, fyrst kvenna, en hún hlaut flest atkvæði í annarri umferð biskupskjörs. Agnes hlaut 64,3% atkvæða en Sigurður Árni Þórðarson 31,9%. Úrslitin voru tilkynnt í Dómkirkjunni í Reykjavík klukkan hálf fjögur, en atkvæði voru talin á Dómkirkjuloftinu.

Fimm hundruð og tveir prestar og aðrir kirkjunnar þjónar voru á kjörskrá og kusu 477.

Agnes verður vígð til biskups 24. júní en hún er sóknarprestur í Bolungarvíkurprestakalli og prófastur í Vestfjarðaprófastdæmi.

Agnes er fædd á Ísafirði 19. október 1954 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði. Að því loknu stundaði hún píanónám við Tónlistarskóla Reykjavíkur og lærði á pípuorgel við Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hún lauk Guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1981. Þá lagði Agnes stund á prédikunarfræði við guðfræðideild háskólans í Uppsölum í Svíþjóð árið 1997 og rannsakaði félagsmótun prestabarna, sem hluta af námi í kennimannlegri guðfræði og almennum trúarbragðafræðum árin 2006-2007.

Agnes starfaði sem æskulýðsfulltrúi að loknu guðfræðiprófi en árið 1986 var hún skipuð sóknarprestur við Hvanneyrarprestakall, þar sem hún var í átta ár, eða þar til hún tók við sem sóknarprestur í Bolungarvíkurprestakalli árið 1994. Fimm árum síðar var Agnes skipuð prófastur í Ísafjarðarprófastsdæmi, síðar Vestfjarðaprófastdæmi.
 
Hún á þrjú uppkomin börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, Hannesi Baldurssyni tónlistarmanni, og eitt barnabarn.