Agndofa yfir gjörðum flugmannsins

26.03.2015 - 14:34
epa04679750 Cards, flowers and letters lay at the airport in Duesseldorf, Germany, 26 March 2015. Germanwings Flight 4U 9525, carrying 144 passengers and six crew members from Barcelona, Spain to Dusseldorf, Germany, crashed 24 March in the French Alps,
Fólk hefur skilið eftir blóm og kort á flugvellinum í Dortmund til að lýsa hluttekningu sinni. Mynd: EPA - DPA
Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa móðurfélags Germanwings, segist vera agndofa yfir upplýsingum frá frönskum saksóknara um að aðstoðarflugmaður flugvélarinnar sem hrapaði í Ölpunum hafi að öllum líkindum stýrt henni viljandi til jarðar.

 

Spohr hélt blaðamannafund klukkan tvö að íslenskum tíma. Þar komu fram fyrstu viðbrögð Lufthansa eftir blaðamannafund franska saksóknarans í hádeginu. Spohr sagðist engar upplýsingar hafa um hvað hefði getað valdið því að Andreas Lubitz aðstoðarflugmaður ákvað að lækka flugið og fljúga flugvélinni beint á fjall. Spohr sagði að Lubitz hefði staðist sálfræðipróf þegar hann hóf þjálfun hjá fyrirtækinu og gengist undir læknisskoðanir eftir það.

Spohr sagði að ekkert öryggiskerfi í veröldinni hefði dugað til að koma í veg fyrir gjörðir aðstoðarflugmannsins eins og saksóknarinn í Frakklandi lýsti þeim.

Óhugsandi að um slys hafi verið að ræða
Franski saksóknarinn Brice Robin upplýsti á blaðamannafundi í hádeginu að flugvélin hefði byrjað að lækka flugið eftir að flugstjórinn yfirgaf flugstjórnarklefann. Á upptökum heyrist þegar hann biður aðstoðarflugmanninn að taka við stjórn flugvélarinnar, stendur upp og fer út úr flugstjórnarklefanum. Þar heyrist einnig að flugstjórinn snýr aftur en kemst ekki inn í klefann. Slá þarf inn ákveðinn kóða til að komast inn í flugstjórnarklefann en sá sem er inni í klefanum hefur 30 sekúndur til að ógilda innsláttinn og koma þannig í veg fyrir að óviðkomandi komist inn í flugstjórnarklefann. Af upptökunum má ráða að flugstjórinn hafi rætt við aðstoðarflugmanninn og ítrekað reynt að komast inn, en án árangurs. Í lok upptökunnar heyrist í æpandi farþegum.

Robin sagði að það væri útilokað að flugvélin hefði lækkað flugið fyrir mistök. Ráðast þarf í nokkrar aðgerðir til að lækka flug vélarinnar eins og var raunin með farþegaþotuna sem fórst í Ölpunum. Því er útilokað að það gæti liðið yfir flugmann með þeim afleiðingum að hann hnigi yfir stjórntækin og ylli því þannig að vélin lækkaði flugið. Að auki heyrist á upptökunum að andardráttur aðstoðarflugmannsins var eðlilegur allan tímann.

Franski saksóknarinn og þýsk yfirvöld segja að engar upplýsingar hafi komið fram sem tengi Lubitz við hryðjuverkasamtök.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, sagði að sér væri mjög brugðið yfir niðurstöðum saksóknara. Hann ítrekaði samúðarkveðjur sínar til aðstandenda þeirra sem fórust.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi